Leiðtogar þriggja fjölmennustu aðildarríkja Evrópusambandsins: Þýskalands, Frakklands og Ítalíu, komu saman til Kænugarðs til að funda með Volodímír Selenskíj, forseta Úkraínu, og sýna Úkraínumönnum stuðning í gær. Þeir Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, Emmanuel Macron, forseti Frakklands og Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, ferðuðust saman til Kænugarðs með lest frá Póllandi. Þar ávörpuðu þeir blaðamannafund ásamt Selenskíj og Klaus Iohannis, forseta Rúmeníu.

Meðal þess sem leiðtogarnir ræddu var aðildarumsókn Úkraínu að Evrópusambandinu. Búist er við að leiðtogaráð ESB mæli með því í dag að Úkraína fái formlega stöðu umsækjanda. Macron, Scholz og Draghi lýstu allir yfir stuðningi við þetta skref í heimsókninni. Macron sagði þetta vera „sterkt, fljótlegt og langþráð teikn um von og skýrleika sem ESB vilji senda Úkraínu.“

Leiðtogarnir heimsóttu jafnframt úthverfisborgina Írpín, sem var hernumin af Rússum við upphaf innrásarinnar en endurheimt af Úkraínumönnum í lok mars. Scholz sagði eyðilegginguna þar vera „táknmynd ótrúlegrar grimmdar rússneska stríðsins.“