Andstaðan við sótt­varna­aðgerðir og bólusetningar hefur ekki minnkað þrátt fyrir að endalok faraldursins séu í augsýn. Á sunnudag mótmæltu þúsundir í Washington og í Brussel sló í brýnu milli mótmælenda og lögreglu. Hér á Íslandi var bólusetningum barna mótmælt á Austurvelli.

„Við erum mjög hratt að skera þá hópa sem ekki vilja láta bólusetja sig frá samfélaginu,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Þetta birtist til dæmis hjá austurrískum og frönskum stjórnvöldum. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafi farið fram með fordæmalausri hörku í garð minnihlutahóps.

Eiríkur bendir á að þeir sem mótmæli séu ekki einsleitur hópur. Stór hluti sé á móti sóttvarnaaðgerðum vegna frelsisskerðingarinnar, sumir vegna mismununar bólusettra og óbólusettra og sumir telji bólusetningar vera skaðlegar og eru hallir undir samsæriskenningar. Hvað verði um þessa hópa eftir faraldurinn sé ekki augljóst.

„Popúlistar hafa alltaf nýtt sér samsæriskenningar og jafnvel staðið að dreifingu þeirra. Það er óljóst hvernig þeir muni nýta sér endalok þessa faraldurs sér til framdráttar,“ segir Eiríkur. Popúlistaflokkar hafi víða átt nokkuð erfitt uppdráttar í faraldrinum en fleiri færi geti nú aftur verið að opnast fyrir þá.

Eitt dæmi, sem gæti reynst stórt, er brottvísun serbneska tennis­kappans Novak Djokovic frá Ástralíu vegna bólusetningarstöðu hans. Í augum sumra varð hann að píslarvætti vegna þessa og Eiríkur bendir á að óbólusettir hafi fengið leiðtoga til að líta til þess.

Þá er umræðan um bólusetningarvottorð alltaf að verða háværari. Meðal annars hafa framkvæmdastjórar Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka ferðaþjónustunnar hér á Íslandi sagt sig fylgjandi slíku fyrirkomulagi.

Hópur hefur mótmælt bólusetningum í nokkur skipti á árinu.
Fréttablaðið/Eyþór

Eiríkur segir eina mögulega sviðsmynd þá að bólusetningarstaða muni ekki skipta máli þegar faraldrinum linni. Vottorðin hverfi og gjáin milli bólusettra og óbólusettra sömuleiðis. En þetta sé bjartsýn spá og að önnur framvinda sé einnig möguleg.

„Manni sýnist að bólusetningarvottorð gætu allt eins verið fest í sessi, jafnvel þó að faraldrinum linni,“ segir Eiríkur. „Þá erum við komin með jaðarsettan hóp sem hefur ekki sama aðgang að samfélaginu og aðrir. Forsagan segir að slíkir hópar eflist í andstöðu við sitt samfélag.“

Þessi andstaða geti brotist út með hvaða hætti sem er, í ýktustu dæmum sem ofbeldi. Til séu að verða stórir hópar sem treysta ekki stjórnvöldum og stjórnvöld ýti frekar út á jaðarinn sem magnar vantraustið.

„Þetta er varasamur vítahringur sem fjölmörg fordæmi sýna að geta leitt samfélög í ógöngur. Sumir leiðtogar virðast frekar ætla að magna upp vandann en að leysa hann,“ segir Eiríkur. Farsælli leið væri að líta á óbólusetta sem hóp sem þurfi að hlúa að og reyna með skilningi og hlýju að sýna fram á að fari villur síns vegar í stað þess að jaðarsetja.