Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur í dag á móti Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands.

Ráðmennirnir þrír koma hingað til lands, ásamt forsætisráðherrum annarra Norðurlanda, til þess að sækja árlegan sumarfund Norðurlandaleiðtoga þar sem Merkel er sérstakur gestur.

Mun Katrín fara með Löfven í heimsókn í Hellisheiðarvirkjun í dag og hitta Rinne í Ráðherrabústaðnum. Þaðan fer forsætisráðherra á Þingvelli þar sem hún tekur á móti þýska kanslaranum.

Ráðherrafundurinn sjálfur er svo á morgun í Hörpu. Á fundinum er ætlunin að fjalla um loftslagsmál og önnur umhverfismál, framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar, norðurslóðir, stöðu mannréttindamála, alþjóðamál og öryggismál.