Þýskaland Undir forystu Þýskalands komu helstu hagsmunaaðilar borgarastyrjaldarinnar í Líbíu saman í Berlín í gær. Þar leituðust Þýskaland og Sameinuðu Þjóðirnar við að hefta mikil afskipti erlendra herja af stríðinu, koma á vopnahléi stríðandi fylkinga og styðja póli­tískt ferli til að stöðva stjórnleysið í Líbíu.

Angela Merkel, kanslari Þýska­lands, tók á móti leiðtog­um ellefu ríkja utan Líbíu, auk Sam­einuðu þjóðanna, Evrópusambandsins, Afríkusambandsins og Arababandalagsins.

Þýskaland hefur stutt við viðleitni Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóð­anna og Ghassan Salame, erindreka samtakanna í Líbíu, til að stöðva bardagana í Líbíu.

Meðal leiðtoganna sem sóttu fundinn voru Vladímír Pútín, forseti Rússlands, Recep Erdogan, forseti Tyrklands, Emmanuel Macron, forseti Frakklands, Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Leiðtogar stríðandi fylkinga í Líbíu, Fayez Sarraj forsætisráðherra og Khalifa Haftar hershöfðingi, sóttu einnig fundinn.

Fréttaskýrendur AP sögðu líkurnar á raunverulegum friði í landinu óljósar. Fyrr í mánuðinum náðist samkomulag um vopnahlé að undirlagi Rússa og Tyrkja. Það vopnahlé hefur ítrekað verið brotið.

Allt frá því að Muammar Gadd­afi var komið frá völdum árið 2011 hefur Líbía ólgað af átökum ólíkra fylkinga. Í landinu er nú tvær ríkisstjórnir, studdar af mismunandi þjóðum: Annars vegar er ríkisstjórnin í Trípólí sem nýtur viðurkenningar Sameinuðu þjóðanna og hins vegar ríkisstjórnin í Tóbrúk með herforingjann Haftar sem hefur náð yfirráðum yfir langstærstum hluta landsins.

Haftar hefur notið stuðnings Egyptalands, Rússlands, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Frakklands, á meðan ríkisstjórnin í Trípólí hefur aðallega snúið sér til Tyrklands vegna hermanna og vopna.

Á fundinum í Berlín lögðu Þjóðverjar höfuðáherslu á að fá utanaðkomandi aðila til að draga úr flutningi á vopnum til Líbíu og tryggja að vopnahléið haldist og skapa þannig rými fyrir friðarumleitanir undir forystu Sameinuðu þjóðanna.

Þjóðverjum er mikið í mun að koma í veg fyrir að borgarastríðið í Líbíu ýti enn undir stjórnleysi á svæðinu og setji mögulega af stað nýjar bylgjur flóttafólks yfir Miðjarðarhaf í leit að öryggi í Evrópu.

Þýskir embættismenn hafa gætt þess að halda öllum væntingum vegna fundarins mjög í skefjum og sögðu ráðstefnuna aðeins upphaf að ferli í þágu friðar.