Sauli Niini­sto, for­seti Finn­lands, og Sanna Marin, for­sætis­ráð­herra, hafa gefið frá sér sam­eigin­lega yfir­lýsingu þar sem þau segja það nauð­syn­legt að Finn­land sæki tafar­laust um aðild að At­lants­hafs­banda­laginu (NATÓ).

„Í vor áttu sér stað mikil­vægar um­ræður um mögu­leikann á því að Finn­land gangi í NATÓ,“ segir í yfir­lýsingunni. „Það þurfti tíma fyrir þingið og sam­fé­lagið í heild sinni til að mynda sér skoðanir í málinu.“

Þá segir að þau hafi viljað gefa á­kvörðuninni það rými sem það þurfti og tíma fyrir Finn­land til að byggja upp sam­skipti við NATÓ og aðildar­ríki þess, sem og við Sví­þjóð.

Nú vilji Niini­sto og Marin lýsa stöðu sinni í málinu, meðal annars til upp­lýsingar fyrir þing­menn landsins. „Aðild að NATÓ myndi styrkja öryggi Finn­lands,“ segir í yfir­lýsingunni. „Sem með­limur í NATÓ myndi Finn­land styrkja varnar­banda­lagið í heild sinni.“

„Finn­land verður tafar­laust að sækja um aðild að NATÓ,“ segir í yfir­lýsingunni. Þau kalla eftir því að á­kvörðun verði tekin á næstu dögum um hvort sótt verði um aðild.