Leiðtogar dönsku stjórnmálaflokkanna héldu á fund til Margrétar Danadrottningar í Amalíuborg klukkan eitt í dag. Mette Frederiksen, forsætisráðherra, fór á fund með drottningunni fyrr í dag til þess að afhenda afsagnarbréf ríkisstjórnar sinnar, eins og hefð er fyrir.
Nú halda hins vegar allir leiðtogar flokkanna á fund til drottningarnar og lýsa þeir fyrir henni hver skoðun þeirra er á hvernig næsta ríkisstjórn Danmerkur ætti að líta út.
„Eftir að hafa gert grein fyrir úrslitum kosninganna og ástandi þingsins lagði forsætisráðherra fram afsögn ríkisstjórnarinnar og ráðlagði að fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem hafa náð kjöri til þingsins fái nú tækifæri til að tjá sig um yfirvofandi stjórnarmyndun,“ sagði í tilkynningu frá drottningunni.
Greint var frá talningarklúðri sem orðið hafði í Frederikshavn-kjördæminu, en þá var atkvæðum Einingarlistans og Danmerkurdemókrata ruglað saman. Það leiddi til þess að tæplega 900 atkvæði voru færð frá Einingarlistanum til Danmerkurdemókrata.
Fyrst um sinn sögðu danskir fjölmiðlar frá því að klúðrið gæti haft áhrif á niðurstöður kosninganna en svo virðist ekki vera þegar öll atkvæði eru talin.