Leið­togar dönsku stjórn­mála­flokkanna héldu á fund til Margrétar Dana­drottningar í Amalíu­borg klukkan eitt í dag. Mette Frederik­sen, for­sætis­ráð­herra, fór á fund með drottningunni fyrr í dag til þess að af­henda af­sagnar­bréf ríkis­stjórnar sinnar, eins og hefð er fyrir.

Nú halda hins vegar allir leið­togar flokkanna á fund til drottningarnar og lýsa þeir fyrir henni hver skoðun þeirra er á hvernig næsta ríkis­stjórn Dan­merkur ætti að líta út.

„Eftir að hafa gert grein fyrir úr­slitum kosninganna og á­standi þingsins lagði for­sætis­ráð­herra fram af­sögn ríkis­stjórnarinnar og ráð­lagði að full­trúar þeirra stjórn­mála­flokka sem hafa náð kjöri til þingsins fái nú tæki­færi til að tjá sig um yfir­vofandi stjórnar­myndun,“ sagði í til­kynningu frá drottningunni.

Greint var frá talningar­klúðri sem orðið hafði í Frederiks­havn-kjör­dæminu, en þá var at­kvæðum Einingar­listans og Dan­merkurdemó­krata ruglað saman. Það leiddi til þess að tæp­lega 900 at­kvæði voru færð frá Einingar­listanum til Dan­merkurdemó­krata.

Fyrst um sinn sögðu danskir fjöl­miðlar frá því að klúðrið gæti haft á­hrif á niður­stöður kosninganna en svo virðist ekki vera þegar öll at­kvæði eru talin.