Rann­sóknar­nefnd sam­göngu­slysa hefur beðið breskan mann af­sökunar á mis­ræmi í skýrslu sinni um bana­slys sem hann var í á milli jóla og ný­árs árið 2018 við Núps­vötn. Maðurinn ók bílnum sem hafnaði utan brúnnar við Núps­vötn en í slysinu missti hann eigin­konu sína, ellefu mánaða gamla dóttur sína og mág­konu sína. Alls voru sjö í bílnum. Maðurinn missti stjórn á bílnum á brúnni, sem er einbreið, og hrapaði um átta metra niður af henni.

Fram kom í kvöld­fréttum RÚV í kvöld að í upp­runa­legri skýrslu nefndarinnar hafi sagt að maðurinn hafi ekki verið í belti en í gögnum sem Kveikur hefur undir höndum komi fram að hann hafi verið í því. Eftir að nefndinni var bent á þetta mis­ræmi var skýrslan upp­færð og maðurinn beðinn af­sökunar.

Fjallað verður um mál mannsins í frétta­skýringar­þættinum Kveik í kvöld þar sem rætt verður við manninn. Í við­talinu gagn­rýnir hann bæði ís­lenska vega­kerfið og bílinn sem hann hafði til leigu.

Hér að neðan má sjá eldri fréttir sem hafa verið skrifaðar um banaslysið.