Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur svarað á ný fyrirspurn frá Brynju Dan Gunnarsdóttur um laxeldi, þar sem fyrra svar hennar var rangt.

Fram kom í fyrra svari að erfðablöndun milli eldislaxa og laxa úr villtum stofnum hefði ekki verið staðfest. Það er rangt.

Í leiðréttu svari segir að í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um erfðablöndun eldislaxa af norskum uppruna við íslenska laxastofna frá árinu 2017, hafi komið fram að skýr merki væru um erfðablöndun í ám á Vestfjörðum. Við greiningar á sýnum, sem síðar hefur verið safnað, hefur fyrri greining verið staðfest. Með öðrum orðum: Erfðablöndun hefur átt sér stað.

Þrjú tilvik um strok úr kvíum teljast vera stór, samkvæmt svarinu, en flestir laxar úr eldi hafa veiðst í nánasta nágrenni við eldissvæðin, samanber Mjólká í Arnarfirði.

Í svarinu segir að Svandís líti strok eldislaxa úr kvíum mjög alvarlegum augum og hafi ákveðið að stofna starfshóp sem muni yfirfara þær reglur sem gilda hérlendis og þá ferla og framkvæmd sem er til staðar. Jafnframt á hópurinn að afla gagna um reglur og framkvæmd þeirra í Noregi og Færeyjum. Hópurinn mun gera tillögur að endurskoðuðum reglum og verkferlum.