Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir leiðinlegt að vera minnt á hvað fáir eru í þingflokki flokksins.
Diljá tjáir sig á Facebook síðu sinni þar sem hún bregst við fréttum af því að meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins styðji Bjarna Benediktsson til áframhaldandi setu sem formaður flokksins frekar en Guðlaug Þór Þórðarson.
Diljá vildi ekki gefa upp afstöðu sína við Morgunblaðið þegar eftir því var leitað. Hún var hinsvegar sjálf á stuðningsmannafundi Guðlaugar Þórs í gær. Hún var sömuleiðis aðstoðarmaður hans þegar hann var utanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili.
„Alltaf jafn leiðinlegt að vera minnt á hvað við erum orðin fá í þingflokknum..“ skrifar Diljá. Hún segist hlakka til landsfundar þar sem almennir flokksmenn leggi kjörnum fulltrúum línuna en ekki öfugt.
Guðlaugur Þór hefur gagnrýnt frammistöðu flokksins í kosningum. Sagði hann í gær í ræðu sinni þar sem hann tilkynnti framboð að sér hefði brugðið við úrslit í sveitarstjórnarkosningum síðasta haust.
Sagði Guðlaugur að bréf sem sent hefði verið til flokksmanna í kjölfarið þar sem fram hefði komið að flokkurinn væri þrátt fyrir allt stærstur, hefði skotið skökku við. „Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að vera stærsti flokkurinn, hann á alltaf að vera langstærsti flokkurinn,“ sagði Guðlaugur í ræðu sinni í gær.