Neytendastofa vinnur nú að uppfærslu leiðbeininga um merkingar auglýsinga á samfélagsmiðlum og segir Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu, ábendingar hafa borist frá áhrifavöldum sjálfum um að eldri leiðbeiningarnar hafi ekki þótt nógu skýrar eða myndrænar.

Aðspurð hvað áhrifavaldar hafi kvartað yfir segir Þórunn Anna ekkert eitt standa upp úr, leiðbeiningarnar hafi þó þótt of flóknar og ekki nægilega aðgengilegar.

Þórunn Anna segir eldri leiðbeiningarnar frá árinu 2015 og að tími sé kominn til að uppfæra þær í takt við breytta tíma. „Þegar við gerðum leiðbeiningarnar árið 2015 var bloggið í sjálfu sér mest það sem var að reyna á. Svo eru komnir allt aðrir miðlar núna,“ segir hún.

Ábendingar frá neytendum

Aðspurð hvort Neytendastofu berist margar ábendingar varðandi duldar auglýsingar áhrifavalda segir Þórunn Anna svo vera.

„Það er alltaf töluvert af ábendingum sem við fáum um áhrifavalda og fólk telur ekki vera merkja nógu vel,“ segir Þórunn Anna og bætir við að þegar ákvarðanir hafi verið teknar í einstaka málum tengdum áhrifavöldum komi holskefla af ábendingum frá neytendum. „Því þá er þetta í umræðunni.“

Engin mál tengdum áhrifavöldum séu þó til meðferðar hjá Neytendastofu núna.

Gerir ráð fyrir athugasemdum

Drög að nýjum leiðbeiningum um merkingar auglýsinga á samfélagsmiðlum er nú aðgengilegt á vef Neytendastofu og geta öll þau sem vilja komið með umsögn eða athugasemdir við leiðbeiningarnar. Umsagnarfrestur er til og með 25. júlí næstkomandi.

Þórunn Anna segir engar ábendingar hafa borist enn en gerir ráð fyrir að fá eitthvað, hvort sem það verði frá áhrifavöldum sjálfum eða í gegnum auglýsingastofur.

„Ég ætla allavega að vona að það verði komið með ábendingar á þessu stigi en ekki kvartað eftir á,“ segir Þórunn Anna létt í bragði, enn sé tæpur mánuður eftir af umsagnarfrestinum.

Duldar auglýsingar

Með uppfærslu leiðbeininganna er markmiðið að skýra enn frekar hvaða sjónarmið Neytendastofa leggur til grundvallar við mat á því hvort meintar duldar auglýsingar hafi verið birtar í samræmi við viðeigandi lög.

Í drögunum kemur fram að tilkynningar eða umfjöllun teljist sem auglýsing ef miðlað er gegn endurgjaldi og hún felur í sér kynningu á ímynd, vörumerki, vöru eða þjónustu.

Duldar auglýsingar séu bannaðar hvar sem þær birtast og samkvæmt lögum skuli auglýsing vera þannig úr garði gerð að sá sem sér hana viti að þetta sé auglýsing.