Til­kynnt var um inn­brot á heimili í austur­bænum fyrr í vikunni þar sem ýmsu hafði verið stolið af hús­ráð­endum en þetta kemur fram í til­kynningu Lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu.

Sam­kvæmt til­kynningunni bjuggu er­lendir verka­menn á staðnum sem hafa oft skamma við­veru á Ís­landi og var tjónið til­finninga­legt fyrir fólkið. Við rann­sókn málsins kom í ljós að sam­starfs­maður fólksins hafi fyrr um daginn verið rekinn úr starfi sínu og hefði lík­lega bókað flug úr landi sam­dægurs.

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hafði því sam­band við lög­reglu­stjóra á Suður­nesjum þar sem óskað var eftir að maðurinn yrði stöðvaður og skór hans bornir saman við fót­spor sem fundust á vett­vangi.

Lög­reglan á Suður­nesjum hand­tók manninn í Leifs­stöð þar sem hann var á leið úr landi og reyndust skór hans passa við um­rætt fót­spor. Allt þýfið úr inn­brotinu fannst í far­angri mannsins og er málið nú á loka­stigum rann­sóknar að sögn lög­reglu.