Eftir að myndlistamaðurinn Oddur Eysteinn Friðriksson birti ádeilu sína á markaðsöflin öðlaðist hún fljótlega sjálfstætt líf og vakti athygli langt út fyrir landsteinanna.

Áður en hann vissi af var pósthólfið farið að fyllast af skilaboðum frá áhrifavöldum, fjölmiðlum, óánægðum viðskiptavinum, fólki í atvinnuleit og fyrirtækjum sem buðu flugvélar, starfslið og þjónustu.

Oddur, betur þekktur sem Odee, segist hafa fengið mun meiri viðbrögð við ímyndaða flugfélaginu MOM air en hann hafði nokkurn tíma gert ráð fyrir. Sást það til að mynda vel á því að heimasíða hins meinta flugfélags gaf sig undan álagi fljótlega eftir að Oddur tilkynnti nafnlaust um stofnun þess.

Samdægurs var búið að tengja dularfulla verkefnið við Odd sem hafnaði því þó staðfastlega að tengjast MOM air á neinn hátt.

Nokkrum dögum síðar steig Oddur fram og sagðist vera stofnandi og framkvæmdastjóri félagsins með orðunum: „Þetta er ekki eitthvað grín. Hér er full alvara á ferð.“

Tug þúsundum vefheimsókna og sex þúsund bókunatilraunum síðar hefur hann lýst því yfir að allt havaríið hafi verið hluti af verkefni í myndlistanámi hans við Listaháskóla Íslands.

Virtist sem hver sem er gæti reynt að stofna flugfélag

Óhætt er að segja Oddur hafi farið óhefðbundnari leið en flestir samnemendur sínir. Ekkert lát virðist vera á áhuga fjölmiðla á MOM air í kjölfar afhjúpunarinnar en að sögn Odds ræddi hann við fréttamann CNN í morgun.

Hann segir að hugmyndin að verkefninu hafi upphaflega kviknað þegar hann fylgdist með umfjöllun um fyrirhugaða stofnun nýrra flugfélaga í kjölfar falls WOW air snemma á síðasta ári.

„Það virtist bara hver sem er geta stofnað flugfélag og þegar ég fór að rýna í hvað var verið að segja á fréttamannafundunum og í tilkynningunum þá fannst mér í rauninni aldrei koma fram praktísk atriði eins og hvaðan peningurinn kom eða flugvélarnar.“

Merki og einkennislitur MOM air minnir um margt á markaðsefni hins fallna WOW air.
Mynd/Skjáskot

Þar segist hann til að mynda vísa til óskyldra áforma Michelle Ballarin, Skúla Mogensens og Hreiðars Hermannssonar um stofnun lággjaldaflugfélaga í kjölfar gjaldþrots WOW air. Ekkert þeirra hefur hafið flugferðir.

„Ég sá fyrir mér að það yrði mjög auðvelt að leika þetta eftir, ég gæti bara sett upp heimasíðu og sent nokkrar fréttatilkynningar. Það virtist bara vera nóg til þess að fullt af fólki taldi að það væri að koma nýtt flugfélag.“

Þá hafi skörp samfélagsádeila átt að skína í gegn.

„Það eru margir punktar sem ég dreifði um verkið, eins og fáránleikinn í því að vera með umhverfisvænt flugfélag og berjast fyrir kvenréttindum. Þetta eru svo markaðsvædd hugtök í dag og í rauninni popúlismi. Ef eitthvert fyrirtæki hengir þetta á sig þá stökkva allir um borð.“

Fékk símtal frá lögmanni Ballarin

Oddur lét ekki þar við sitja og setti upp síður á samfélagsmiðlum, hélt blaðamannafund og sendi inn umsókn um vörumerkjaskráningu til Hugverkastofu. Hið síðastnefnda verður að teljast djörf ákvörðun í ljósi þess að merki MOM air svipar mjög til vörumerkis hins fallna WOW air sem er nú í eigu US Aerospace Associates, félags Ballarin.

„Mér fannst það skemmtilegt tvist en svo sannarlega fannst mér munurinn á vörumerkjunum vera nógu mikill til að það myndi sleppa sem nýtt vörumerki. Ég er alveg sannfærður um það.“

Oddur hefur áður unnið mikið með höfundaréttarvarið myndefni í verkum sínum og segist fullviss um að umrædd notkun sé eðlilegur hluti af tjáningarfrelsinu.

Eins og búast mátti við voru ekki allir sammála þeirri túlkun og fékk Oddur fljótlega kurteisislegt símtal frá Páli Ágústi Ólafssyni, lögmanni Michelle Ballarin og US Aerospace Associates, en sú síðarnefnda hyggst hefja flugrekstur undir merkjum WOW air. Þar lýsti lögmaðurinn því meðal annars yfir að hann væri mikill aðdáandi listamannsins.

Seinna sama dag sagði Páll í samtali við Fréttablaðið að „það [megi] alveg hafa gaman af listrænum gjörningum en einhver staðar þurfa mörkin að liggja. Þarna er klárlega óleyfileg notkun á höfundaréttarvörðu vörumerki.“

Oddur segist ekki á neinum tímapunkti haft áhyggjur af því að teymi Ballarin myndi láta reyna á þetta með lögformlegum hætti með tilheyrandi kostnaði og áhættu fyrir sig.

Bárust nokkrar atvinnuumsóknir

Auk þess að hafa fundið fyrir áhuga á verkefninu úr ýmsum áttum bárust Oddi sömuleiðis fljótlega umsóknir um störf hjá félaginu.

„Það voru nokkrir flugmenn sem sendu umsóknir og flugfreyjur sem sendu fyrirspurnir um það hvenær væri hægt að sækja um.“

Oddur segist ekki hafa svarað atvinnuumsóknunum en þó liðið illa yfir því að hafa mögulega gefið fólki falskar vonir um starf í fluggeiranum á sama tíma og margir hafa þar misst störf sín á síðustu mánuðum.

„Mömmufuglarnir“ eins og þeir eru kallaðir á heimasíðu MOM air áttu að vera sex talsins og af gerðinni Airbus 320neo.
Mynd/Skjáskot

„En ég upplifði það samt ekki þannig að það væri sterk trú hjá fólki að þetta væri raunverulegt, mér fannst það vera meira ríkjandi hjá vongóðum flugfarþegum sem voru að láta sig dreyma frekar en áhugasömu starfsfólki.“

Greinilegt hafi verið að fólk sem væri nú orðið langþreytt á ástandi heimsins hafi viljað trúa á verkefnið, láta kveikja hjá sér vonarneista og dreyma um utanlandsferðir.

„Mér finnst það í rauninni bara vera partur af þessari ádeilu. Það er alltaf verið að reyna að stofna einhver flugfélög og þetta er að gefa fólki vonir sem ekkert er á bak við. Í rauninni var það bara hluti af tilgangi verksins að sýna fram á þennan fáránleika og hvernig markaðsvæðingin er.“

Airbus A321neo flugvél WOW air til samanburðar.
Fréttablaðið/Ernir

Boðið að leigja flugvélar og gefa áhrifavöldum innihaldslausa starfstitla

Eins og áður segir kom það Oddi á óvart hve margir aðilar hafi boðið fram þjónustu sína í kjölfar þess að verkefnið fór í loftið.

Hann segir að alþjóðlegt fyrirtæki að nafni Titan Aero hafi boðið honum flugvélar og starfslið ásamt því að aðrir hafi boðið slott og þjónustu á alþjóðaflugvöllum.

„Svo var eitthvað risamarkaðsfyrirtæki sem sér um Lufthansa sem vildi þjónusta MOM air og líka fullt af áhrifavöldum sem vildu vera hluti af þessu án þess að ég gæfi neitt upp.“

Gjafabréf sem áhrifavaldurinn Binni Löve fékk afhend frá MOM air.
Mynd/Aðsend

Að sögn Odds óskuðu til að mynda bæði innlendir og erlendir áhrifavaldar eftir því að fá send gjafabréf frá félaginu.

„Sumir birtu myndir af miðunum, aðrir ætluðu að vera með einhverja leiki sjálf og gefa miðana. Sumir þóttust vera að bóka flug og vildu fá starfstitla hjá fyrirtækinu og ýmislegt. Ég lét sumt af því fólki hafa starfstitla og setti myndir af þeim í fréttatilkynningar sem ég sendi út í heim.“

Sömuleiðis hafi verið nokkuð um það að áhrifavaldar óskuðu eftir því að fá að vera um borð í jómfrúarflugi MOM air og sérstökum fjölmiðlaflugferðum.

Töldu hann vera nógu klikkaðan til að standa við stóru orðin

Oddur fullyrðir að fyrir afhjúpunina í gær hafi hann einungis greint tveimur eða þremur aðilum frá raunverulegum fyrirætlunum sínum með MOM air.

„Þau eru að fylgjast með þessu og á einhverjum tímapunkti þar sem ég var kominn með flugvélar og eitthvað slíkt, þá fóru þau allt í einu að efast um sjálf sig og halda að ég væri í raun og veru að fara að stofna flugfélag. Mér fannst það ótrúlega skondið og eins að samnemendur sem vita að ég var að vinna í gjörningi voru samt einhvern veginn búin að sannfærast um að ég væri mögulega nógu klikkaður til að stofna flugfélag.“

MOM air átti meðal annars að bjóða upp á sérstök Covid-flugferðir og björgunarvesti gegn aukagjaldi.
Mynd/Skjáskot

Eins og áður segir var Oddur afdráttarlaus í svörum sínum til fjölmiðla í upphafi og neitaði því alfarið að vera tengdur MOM air á nokkurn hátt. Þegar hann steig fram í kjölfarið hafnaði hann því svo að um nokkurs konar gjörning væri að ræða.

Þegar blaðamaður spyr Odd hvort það sé réttlætanlegt að segja ósatt og villa um fyrir fólki í nafni listarinnar uppsker hann hlátur.

„Sko, ég tel mig ekki hafa logið neinum sköpuðum hlut. Ég myndi segja að þetta væri svona loðinn sannleikur sem mátti túlka á sinn hátt.“

Oddur hyggst nú leggjast yfir mikið magn skilaboða, tölfræðigagna og fjölmiðlaumfjöllunar sem hafi til komið vegna gjörningsins og stendur jafnvel til að setja upp sýningu þar sem rýnt verður í allt efni tengt verkefninu.

Óljóst er hvort sú stúdía muni sömuleiðis skoða áhrif upplýsingaóreiðu og stöðu hlutlægs sannleika á okkar flóknu tímum.