Tólfti janúar 2021 mun lifa lengi í minni Guðmundar Felix en þann dag fékk hann að vita að gjafi hafi fundist og að hann myndi fá nýja handleggi eftir að hafa misst þá í vinnuslysi rúmum tveimur áratugum fyrr, eða þann 12. janúar 1998. Þannig var 23 ára bið, upp á dag, lokið.

„Þetta var rosalega skrýtinn dagur, maður var búinn að bíða eftir þessu hérna í sjö ár og horfa á símann,“ segir Guðmundur um daginn sem símtalið kom en hann fór um leið upp á spítala þar læknar hófust handa við að undirbúa hann og gjafann þar sem engan tíma mátti missa.

„Hvers konar fáviti fer í svona viljandi?“

Að sögn Guðmundar voru læknarnir búnir að æfa aðgerðina marg oft til þess að hægt væri að stytta tímann sem ekkert blóðflæði væri í höndunum. Undirbúningsaðgerðin, þar sem blóð úr Guðmundi var meðal annars síað, tók aðeins einn og hálfan tíma og litu handleggirnir vel út. Því næst voru handleggirnir græddir á Guðmund.

„Þetta tók 15 tíma yfir það heila, ég vakna einhvern tímann á fimmtudagsmorgni og fyrsta sólarhringinn var það eina sem komst fyrir í hausnum á mér: hvers konar fáviti fer í svona viljandi? Ég vaknaði eins og ég væri með tvo trukka parkeraða á öxlunum á mér,“ minnist Guðmundur.

„Þetta er búið að vera rosalega erfitt, þetta er búinn að vera mikill sársauki,“ segir Guðmundur. Hann lýsir því að hann hafi verið í sömu stellingunni frá því að hann vaknaði og ekki sofið vel. „En þetta er vel þess virði.“

Enn óvíst hversu vel aðgerðin heppnaðist

Hann er nú útskrifaður af gjörgæslu og kominn á almenna deild. Hann segir verkina hafa minnkað verulega og flest allar slöngur sem voru upprunalega tengdar við hann eru farnar. Smávægilegar hindranir hafa komið upp, þar af var hann með stíflaðri æð í hálsi, en það hefur ekki áhrif á blóðflæði.

„Þetta eru leiðindi og þetta eru óþægindi en þetta er ekkert sem að hefur einhver áhrif til lengri tíma,“ segir Guðmundur. Nú tekur við langt endurhæfingarferli en það mun taka nokkur ár að sjá hversu vel aðgerðin heppnaðist.

Mögulega muni hann finna fyrir olnboganum eftir ár og taugarnar fara að vaxa fram í fingur eftir tvö ár, ef allt gengur eftir, en hann segist alveg vera tilbúinn að bíða. „Loksins hef ég eitthvað að gera, annað en að bíða.“

Gáfu honum líf

Alls komu fleiri en 50 manns frá fjórum sjúkrahúsum í Lyon að aðgerðinni. Læknateymin sem framkvæmdu aðgerðina stóðu fyrir blaðamannafundi fyrr í dag þar sem farið var yfir ferlið. Prófessorinn Emmanuel Morelon sagði að þrátt fyrir að vel hafi tekist sé enn mikil vinna eftir.

„Auðvitað er erfitt að segja hvort Felix nái að nota hendurnar sínar eins og venjulegur maður og hafi tilfinningar í þeim. Í fyrstu vonumst við til að hann geti beygt vinstri olnbogann. Fyrir hann er það þó nokkuð. Við björguðum ekki mannslífi en við vonandi gáfum sjúklingnum líf,“ sagði Morelon.