Lego ætlar að fjar­lægja kynjaðar staðal­myndir úr vörum sínum eftir að al­þjóð­leg könnun sem fram­kvæmd var á vegum leikja­fram­leiðandans sýndi að við­horf til leikja og fram­tíðar­starfa eru enn ó­jöfn á milli kynja.

Rann­sak­endur á vegum Geena Davis Stofnunarinnar um kyn­gervi í fjöl­miðlum, sem fram­kvæmdu könnunina, komust að því að á meðan stelpur eru sí­fellt að verða sjálfs­öruggari og opnari fyrir því að taka þátt í alls konar leikjum, þá á hið sama ekki við um stráka.

71 prósent stráka sem tóku þátt í könnuninni og for­eldra þeirra óttuðust að gert yrði grín að þeim ef þeir léku sér með það sem þeir lýstu sem „stelpu­leik­föng“. Madeline Di Nonno, fram­kvæmda­stjóri hjá Geena Davis stofnuninni, segir for­eldra al­mennt hafa meiri á­hyggjur af því að sonum þeirra verði strítt fyrir að leika sér með leik­föng sem tengd eru við hitt kynið heldur en dætrum þeirra.

„En það er líka það að hegðun sem við tengjum við karl­menn er metin hærra í sam­fé­laginu. Þar til sam­fé­lagið viður­kennir hegðun og at­hafnir sem vana­lega eru tengdar við konur sem verð­mætar og mikil­vægar munu for­eldrar og börn hika við að taka þær upp,“ segir Di Nonno.

Könnunin leiddi í ljós að á meðan for­eldrar hvöttu syni sína til að stunda í­þróttir eða vísindi þá var dætrum boðið að stunda dans og búninga­leiki (stúlkur voru fimm sinnum lík­legri en drengir til að vera hvattar til þess) eða að baka (þrisvar sinnum lík­legri til að vera hvattar til þess).

„Þessar niður­stöður undir­strika hversu inn­grónar kynja­staðal­myndir eru um allan heim,“ segir Óskars­verð­launa­leik­konan og bar­áttu­konan Geena Davis sem setti á fót stofnunina árið 2004 til að berjast gegn nei­kvæðum kynja­staðal­myndum.

Stúlkur leika með strákadót en ekki öfugt

Tauga­líf­fræðingurinn Gina Rippon segir það vera vanda­mál að stúlkur séu hvattar til þess að leika sér með „stráka­dót“ en ekki öfugt vegna þess að leik­föng geta verið þjálfunar­tæki.

„Þannig að ef stúlkur eru ekki að leika sér með Lego eða önnur byggingar­leik­föng þá eru þær ekki að þróa með sér rýmis­greind sem mun hjálpa þeim síðar á lífs­leiðinni. Ef stúlkur eru hvattar til að leika sér með dúkkur en ekki strákar þá þróa þeir ekki með sér um­önnunar­hæfi­leika,“ segir Rippon.

Danski leik­fanga­fram­leiðandinn lét fram­kvæma könnunina að til­efni al­þjóða­degi stúlku­barna Sam­einuðu þjóðanna 11. októ­ber. Hátt í 7000 for­eldrar og börn á aldrinum 6-14 ára tóku þátt í könnuninni í löndum á borð við Kína, Tékk­land, Japan, Pól­land, Rúss­land, Banda­ríkin og Bret­land.

Juli­a Goldin, yfir­maður á sviði vöru- og markaðs­þróunar hjá Lego, segir að leikja­fram­leiðandinn sé að vinna hart að því að sam­þætta jafn­réttis­sjónar­mið og hefur fyrir­tækið lofað því að fjar­lægja kynja­staðal­myndir úr vörum sínum.

Lego merkir ekki lengur vörur sínar sér­stak­lega fyrir drengi eða stúlkur og á sölu­síðu þeirra er ekki hægt að leita sér­stak­lega eftir vörum út frá kynjum.

„Við prófum allt á strákum og stelpum og notum fleiri kven­kyns fyrir­myndir. Okkar hlut­verk núna er að hvetja stráka og stelpur sem vilja leika sér með sett sem hafa ef til vill vana­lega verið á­litin ‚ekki fyrir þau‘,“ segir Goldin.

Sjá nánar á The Guar­dian.