Kristján Oddsson, svæðisstjóri og fagstjóri lækninga hjá heilsugæslunni í Hamraborg, greindi frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 að enn ætti eftir að rannsaka leghálssýni sem voru tekin í byrjun nóvember en sýnin lágu óhreyfð í pappakassa vikum saman en um er að ræða rúmlega tvö þúsund sýni.
Að því er kemur fram í frétt Vísis var málið tilkomið vegna skorts á samningum en skimanir fyrir leghálskrabbameini færðust yfir frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæsla um áramótin. Krabbameinsfélagið hætti þá að greina sýnin í nóvember.
Samkomulag náðist í dag
Í kjölfarið hafi ekki náðst að undirrita samninga við rannsóknarstofu í Danmörku sem myndi þá sjá um greiningu sýnanna, þar sem Landspítali hafi ekki getað séð um greiningarnar. Samkomulag hafi síðan náðst í dag og eru vonir bundnar við að samningarnir verði undirritaðir bráðlega.
Að sögn Kristjáns hefur málið tafist meðal annars vegna heimsfaraldurs COVID-19. Meðal þess sem kveðið er á um í samningnum eru sjálftökupróf kvenna og að skimaðir verði endurgjaldslausar. Þá er gert ráð fyrir að biðtími eftir niðurstöðum muni styttast.
„Þegar þessir samningar eru í höfn og þetta er komið í þann farveg sem við viljum þá verða flestar konur búnar að fá svar innan við tíu vikum eftir að sýnið var tekið,” sagði Kristján í viðtali við Stöð 2.