Inga Sæland, formaður og þingmaður Flokks fólksins, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að þriðji orkupakkinn svokallaði verði borinn undir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Umræðan um þriðja orkupakkann hefur farið fram hjá fæstum, en pakkinn hefur verið mikið til umfjöllunar. Inga er ein flutningsmaður á tillögunni um þjóðaratkvæðagreiðslu, sem gerir ráð fyrir því að þingsályktun sem heimilar ríkisstjórninni að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu orkupakkans verði borin undir þjóðina í almennri kosningu.

Í greinargerð með tillögunni segir að innleiðing orkupakkans hafi valdið miklum deilum í samfélaginu. „Innleiðing EES-gerða í EES-samninginn fer fram með þingsályktun um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara. Þar sem um þingsályktun er að ræða hefur forseti Íslands ekki synjunarvald eins og gildir um lagafrumvörp. Því hefur almenningur ekki færi á að hvetja forseta með undirskriftasöfnun eða öðrum hætti til að synja málinu staðfestingar og leggja það þar með í þjóðaratkvæði,“ segir í greinargerðinni.

Samkvæmt lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna skal slík atkvæðagreiðsla fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að tillaga þess efnis að tiltekið mál eða frumvarp skuli borið undir þjóðina er samþykkt. Leggur Inga til að eftirfarandi spurning sé lögð undir þjóðina til synjunar eða samþykkis í ráðgefandi atkvæðagreiðslu: „Vilt þú að Alþingi heimili ríkisstjórn Íslands að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017, frá 5. maí 2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn) og aflétta stjórnskipulegum fyrirvara?“.

Á vef Stjórnarráðsins segir að tillagan til þingsályktunar sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir Alþingi fjalli um heimild fyrir ríkisstjórnina til að „staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, en þó með lagalegum fyrirvara um endurskoðun á ákvæðum íslensku reglugerðarinnar áður en komi til álita að reisa grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB“.

Segir jafnframt að orkupakkinn feli í sér „ákvæði um rétt neytenda og neytendavernd, aðgang að flutnings- og dreifikerfum rafmagns, gagnsæi á markaði, aðskilnað samkeppnisrekstrar (framleiðslu og sölu) frá sérleyfisrekstri (flutningi og dreifingu) og fleira í þá veru“.

Þingsályktun Ingu má lesa í heild sinni hér.