Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ekki mikið svigrúm vera fyrir tilslakanir en hann er nú með í smíðum minnisblað sem verður líklega sent til heilbrigðisráðherra síðar í dag. Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Að sögn Þórólfs mun hann leggja til að núverandi aðgerðir verði hertar enn frekar en vildi ekki greina frekar frá tillögum sínum. Eins og staðan er í dag er 20 manna samkomubann á landinu öllu en útfærsla einstakra tillagna liggur ekki fyrir.

Hann ítrekaði að stjórnvöld sjái um að útfæra tillögurnar en hann sagði að ef aðgerðir verða hertar munu þær líklega aðeins þurfa að vera í gildi í tvær til þrjár vikur. Eftir það væri hægt að huga að tilslökunum, ef allt gengur vel.

„Mínar tillögur eru að þetta muni taka gildi eins fljótt og mögulegt er,“ sagði Þórólfur aðspurður um hvenær hertar aðgerðir þurfi að taka gildi. Hann bætti við að tillögurnar taki þó ekki gildi fyrr en komin er reglugerð. Aðspurður um hvort aðgerðir yrðu hertar á höfuðborgarsvæðinu sagðist hann ekki telja það en að rétt væri að samræma aðgerðir á landinu öllu.

Samfélagssmit í vexti

Alls greindust 42 með veiruna innanlands í gær en enginn á landamærunum. 62 eru nú á sjúkrahúsi með COVID-19, þar af tveir á gjörgæslu og einn á öndunarvél. Karlmaður á níræðisaldri lést á Landspítalanum síðastliðinn sólarhring en þrír hafa látist í þriðju bylgju faraldursins.

Að sögn Þórólfs er kúrfa samfélagslegra smita á uppleið en vonir voru bundnar við að samfélagssmitum myndi fækka um meira en raun ber vitni. Hann sagði það vera ákveðið áhyggjuefni að samfélagsleg smit virðast vera í vexti.

Óttast er að smit tengd Landakoti fari út í samfélagið þar sem um 140 tilfelli má rekja þangað. Þá hefur einnig komið upp hópsýking innan Ölduselsskóla þar sem 44 hafa greinst, aðallega nemendur, auk þess sem litlar hópsýkingar hafa komið upp út frá fjöldkyldum, veislum, vinahópum, vinnustöðum og íþróttum.

„Við eigum langt í land að ná góðum tökum á þessari veiru en við þurfum áfram að standa saman og standa okkur vel, gera það sem við þurfum að gera þar til að gott og öruggt bóluefni kemur á markaðinn,“ sagði Þórólfur.

Fréttin hefur verið uppfærð.