Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, mun líklega í dag leggja fram minnisblað um hertar að­gerðir á landamærunum vegna nýs af­brigðis kórónu­veirunnar, Ó­míkrón.

Hann upp­færði í gær ferða­ráð­leggingar til íbúa á Ís­landi og ráð­leggur þeim nú frá ferða­lögum til til­tekinna landa í Afríku. Fjöldi landa hefur bannað flug­ferða­lög frá sunnan­verðri Afríku, þar á meðal Evrópu­sam­bandið.

Þór­ólfur sagði í sam­tali við RÚV í há­degis­fréttum í dag að hann hafi fundað með full­trúum Evrópu­sam­bandsins seinni partinn í gær og að þar vilji fólk grípa til harðra að­gerða á meðan það er verið að kanna hversu al­var­legt nýja af­brigðið er og hvernig það smitar.

Þór­ólfur sagði við RÚV að hann væri að vinna að nýjum reglum fyrir landa­mærin fyrir þau sem ferðast frá þessum löndum. Hann færir heil­brigðis­ráð­herra nýtt minnis­blað um helgina, lík­lega í dag, kom fram í fréttum RÚV. Þórólfur segir að það þurfi að bregðast hratt við því af­brigði veirunnar dreifist hratt um heiminn núna.

Afbrigðið hefur nú þegar greinst í Þýskalandi og greint var frá því í dag að hollensk yfirvöld ætli sér að kanna sérstaklega hvort að fjöldi farþega sem kom til landsins í gær, og er smitaður af Covid-19, sé smitaður af nýja afbrigðinu.