Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana innan öldungadeildarinnar, hefur lagt það til að lögfræðiteymi Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, fái tvær vikur eftir að ákærurnar til embættismissis á hendur Trump hafa verið sendar til deildarinnar til að undirbúa mál sitt. Leiðtogi Demókrata innan öldungadeildarinnar, Chuck Schumer, íhugar nú málið.
Í tilkynningu segir McConnell að það sé mikilvægt að ferlinu sé ekki flýtt um of þar sem Trump eigi skilið sanngjarna málsmeðferð. Þá hefur CNN það eftir heimildarmönnum að hann hafi sagt í gær að fulltrúadeildin hafi drifið sig um of við að ákæra Trump og því ætti að gera málinu almennilega skil innan öldungadeildarinnar.
Ákærður fyrir að hvetja til uppreisnar
Meirihluti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings samþykkti þann 13. janúar síðastliðinn að ákæra Trump fyrir tilraun til uppreisnar eftir að stuðningsmenn Trumps réðust inn í þinghúsið þann 6. janúar en Trump er eini forseti sögunnar sem hefur tvisvar sinnum verið ákærður til embættismissis.
When asked if an impeachment trial of former President Donald Trump would undercut a message of unity, House Speaker Nancy Pelosi said ignoring all that he did would be ‘harmful to unity’ https://t.co/rCj2idkF9i pic.twitter.com/ubQwsM6nfD
— Reuters (@Reuters) January 21, 2021
Fjölmargir þingmenn Repúblikana hafa gagnrýnt Demókrata vegna málsins og halda því fram að það brjóti í bága við stjórnarskrá Bandaríkjanna að ákæra fyrrverandi forseta. Þá eru þeir ósáttir við að fulltrúadeildin hafi ekki tekið sér nægan tíma til að ræða málið og segja að málið skapi aðeins meiri klofning.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, er þó ekki sammála og segist ekki ætla að víkja frá ákærunum. Hún hefur ekki gefið það út hvenær hún muni senda ákærurnar áfram en hún greindi frá því á blaðamannafundi í gær að þau væru tilbúin til þess. Eftir að ákærurnar hafa verið sendar áfram tekur öldungadeildin málið fyrir daginn þar á eftir.
Óljóst hvenær ákærurnar verða teknar fyrir
Ef þær yrðu sendar strax myndi það tefja fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta sem vinnur nú að því að fá tilnefningar sínar í embætti samþykktar af þinginu. Að því er kemur fram í frétt CNN er óljóst hvort Demókratar, sem eru nú með meirihluta innan beggja deilda þingsins, samþykki tillöguna.
Öldungadeildarþingmaðurinn Chris Coons sagði þó í samtali við CNN að hann teldi að Demókratar væru opnir fyrir tillögunni ef vel tækist að samþykkja tilnefningar Bidens.
Það er því óljóst hvenær réttarhöldin hefjast en tveir þriðju þingmanna öldungadeildarinnar þurfa að samþykkja ákærurnar til þess að Trump verði sakfelldur. Þrátt fyrir að hann sitji ekki lengur í embætti munu sakfelling gera það að verkum að hann gæti ekki boðið sig aftur fram en margir óttuðust að hann myndi gera það í framtíðinni.
Rep. Schiff on Pres. Trump’s second impeachment trial timetable: House Speaker Pelosi "will make the decision based on what’s in the best interest of justice… and that we can deter any future president from the idea that they can try to prevent the peaceful transfer of power." pic.twitter.com/sFwYpyqBGu
— The Situation Room (@CNNSitRoom) January 21, 2021