Mitch McConnell, leið­togi Repúblikana innan öldunga­deildarinnar, hefur lagt það til að lög­fræði­teymi Donalds Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, fái tvær vikur eftir að á­kærurnar til em­bættis­missis á hendur Trump hafa verið sendar til deildarinnar til að undir­búa mál sitt. Leið­togi Demó­krata innan öldunga­deildarinnar, Chuck Schumer, í­hugar nú málið.

Í til­kynningu segir McConnell að það sé mikil­vægt að ferlinu sé ekki flýtt um of þar sem Trump eigi skilið sann­gjarna máls­með­ferð. Þá hefur CNN það eftir heimildar­mönnum að hann hafi sagt í gær að full­trúa­deildin hafi drifið sig um of við að á­kæra Trump og því ætti að gera málinu al­menni­lega skil innan öldunga­deildarinnar.

Ákærður fyrir að hvetja til uppreisnar

Meiri­hluti full­trúa­deildar Banda­ríkja­þings sam­þykkti þann 13. janúar síðast­liðinn að á­kæra Trump fyrir til­raun til upp­reisnar eftir að stuðnings­menn Trumps réðust inn í þing­húsið þann 6. janúar en Trump er eini for­seti sögunnar sem hefur tvisvar sinnum verið á­kærður til em­bættis­missis.

Fjöl­margir þing­menn Repúblikana hafa gagn­rýnt Demó­krata vegna málsins og halda því fram að það brjóti í bága við stjórnar­skrá Banda­ríkjanna að á­kæra fyrr­verandi for­seta. Þá eru þeir ó­sáttir við að full­trúa­deildin hafi ekki tekið sér nægan tíma til að ræða málið og segja að málið skapi að­eins meiri klofning.

Nan­cy Pelosi, for­seti full­trúa­deildar Banda­ríkja­þings, er þó ekki sam­mála og segist ekki ætla að víkja frá ákærunum. Hún hefur ekki gefið það út hve­nær hún muni senda á­kærurnar á­fram en hún greindi frá því á blaða­manna­fundi í gær að þau væru til­búin til þess. Eftir að á­kærurnar hafa verið sendar á­fram tekur öldunga­deildin málið fyrir daginn þar á eftir.

Óljóst hvenær ákærurnar verða teknar fyrir

Ef þær yrðu sendar strax myndi það tefja fyrir Joe Biden Banda­ríkja­for­seta sem vinnur nú að því að fá til­nefningar sínar í em­bætti sam­þykktar af þinginu. Að því er kemur fram í frétt CNN er ó­ljóst hvort Demó­kratar, sem eru nú með meiri­hluta innan beggja deilda þingsins, sam­þykki til­löguna.

Öldunga­deildar­þing­maðurinn Chris Coons sagði þó í sam­tali við CNN að hann teldi að Demó­kratar væru opnir fyrir til­lögunni ef vel tækist að sam­þykkja til­nefningar Bidens.

Það er því ó­ljóst hve­nær réttar­höldin hefjast en tveir þriðju þing­manna öldunga­deildarinnar þurfa að sam­þykkja á­kærurnar til þess að Trump verði sak­felldur. Þrátt fyrir að hann sitji ekki lengur í em­bætti munu sak­felling gera það að verkum að hann gæti ekki boðið sig aftur fram en margir óttuðust að hann myndi gera það í fram­tíðinni.