Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti í samráðsgátt í dag áform um frumvarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis. Samkvæmt frumvarpinu er áformað að leggja skyldu á söluaðila eldsneytis að þeir viðhaldi jarðefnaeldsneytisbirgðum sem jafngildi notkun til 90 daga. Áform um lagasetninguna eru opin til samráðs til 9. febrúar næstkomandi.
Samkvæmt frumvarpinu er söluaðilum jarðefnaeldsneytis gert að tryggja aðgengi hér á landi að birgðum til 60 daga en geta uppfyllt allt að 30 daga með tryggingu í birgðum erlendis.
Samkvæmt frumvarpi ráðherra verður þessi birgðaskylda innleidd í nokkrum skrefum yfir nokkurra ára tímabil og myndi Orkustofnun fara með eftirlit með framkvæmd laganna.
Í samráðsgátt er bent á að í íslenskri löggjöf er ekki tilgreindur aðili sem ber ábyrgð á að til séu neyðarbirgðir eldsneytis eða hversu miklar þær skulu vera. Þá er heldur engin krafa sett á stjórnvöld eða atvinnulíf til að halda uppi lágmarksbirgðum eldsneytis sem nýta mætti í aðstæðum sem takmarka eða útiloka afgreiðslu eldsneytis til Íslands.
„Á meðan Ísland er háð jarðefnaeldsneyti getur skortur á því takmarkað mjög hefðbundna virkni samfélagsins. Vöruflutningar, samgöngur og atvinnulíf getur lamast ef ekki er til taks orkugjafi til að knýja slíkt áfram,“ segir í samráðsgáttinni en í orkustefnu segir til dæmis að nægt framboð eldsneytis sé forsenda öryggis á fjölmörgum sviðum, meðal annars fæðuöryggis, almennra samgangna, löggæslu og sjúkraflutninga. Þar er gert ráð fyrir að öryggisbirgðir olíu verði tiltækar í því skyni að tryggja orkuöryggi og efnahagslegan stöðugleika þar til orkuskiptum er náð.
Greint var frá því í skýrslu starfshóps forsætisráðherra í september á síðasta ári að eldsneytisbirgðir væru langt undir alþjóðlegum viðmiðum. Í skýrslunni var lagt til að hlutaðeigandi ráðuneyti, hvert á sínu málefnasviði, leiði samráð ríkisaðila, atvinnulífs og þriðja geirans.
Þar var það einnig lagt til grundvallar að eftirtaldar birgðir þurfi að vera tiltækar til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættustundu svo að unnt sé að vernda líf og heilsu almennings, tryggja órofa virkni mikilvægra innviða samfélagsins og þjónustu sem er nauðsynleg svo að unnt sé að sinna brýnustu þörfum íbúa og samfélags við slíkar aðstæður:
Matvæli og nauðsynleg aðföng vegna matvælaframleiðslu.
Jarðefnaeldsneyti.
Lyf, lækningatæki og hlífðarbúnaður.
Viðhaldshlutir og þjónusta vegna mikilvægra innviða samfélagsins, þ.m.t. rafmagns og fjarskipta, veitna, samgangna, neyðar- og viðbragðsþjónustu og mannvirkja og veitna.
Hreinlætisvörur og sæfivörur.