Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, lagði í dag fram frum­varp á Al­þingi um heimild Reykja­víkur­borgar til að skipa nefnd til að kanna starf­semi vöggu­stofa.

Hrafn Jökuls­son, einn for­svars­manna Rétt­lætis, stuðnings­hóps fyrrum vöggu­stofu­barna og að­stand­enda, fagnar frum­varpinu og segir að um stóran dag sé að ræða. „Þetta er RISA­STÓR dagur fyrir okkur fimm­menningana og öll hin vöggu­stofu­börnin. Ég veit að Fjölnir og þau hin, sem eru farin, fagna með okkur,“ skrifar Hrafn á Face­book-síðu Rétt­lætis.

For­sætis­ráð­herra reifaði bak­sögu málsins stutt­lega í ræðu­stól Al­þingis áður en hún lagði fram frum­varpið.

„Á síðustu öld annaðist barna­verndar­nefnd Reykja­víkur rekstur vöggu­stofa innan borgarinnar, í gegnum tíðina hefur borið á gagn­rýni á starf­semina bæði á vett­vangi borgar­stjórnar og í fjöl­miðlum og komið hefur fram að brugðist hafi að sinna þeirri frum­skyldu sam­fé­lagsins að standa vörð um vel­ferð barna og ung­menna. Í því ljósi er mikil­vægt að hlutast sé til um ítar­lega rann­sókn á því sem átti sér stað á vöggu­stofum í borginni á síðustu öld með það fyrir augum að leiða hið sanna í ljós,“ sagði Katrín.

Til stendur að Reykja­víkur­borg skipi nefnd óháðra sérfræðinga til að gera heildstæða athugun á starfsemi vöggustofa í Reykjavík á síðustu öld og hefur til­laga þess efnis þegar verið sam­þykkt í Borgar­ráði. Hins vegar skortir nefndina ýmsar laga­heimildir til að rann­sóknin geti farið fram og hyggst for­sætis­ráðu­neytið greiða götu hennar með áður­nefndu frum­varpi.

„Mark­mið laga­setningarinnar er að gera Reykja­víkur­borg kleift að fá greinar­góða lýsingu á starf­semi um­ræddra vöggu­stofa stað­reyna eins og kostur er hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru þar hafi sætt illri með­ferð eða of­beldi meðan á dvölinni stóð, hver af­drif þeirra barna sem vistuð voru á vöggu­stofunum eftir að dvölinni lauk urðu og loks að fyrir liggi til­lögur um frekari við­brögð ef á­stæða þykir til,“ sagði for­sætis­ráð­herra.

Árni H. Kristjánsson, Hrafn Jökulsson, Tómas V. Albertsson og Viðar Eggertsson, forsvarsmenn Réttlætis.
Mynd/Samsett

Dökkur blettur í sögu barna

Í frum­varpinu er lagt til að veitt verði laga­heimild fyrir Reykja­víkur­borg til að setja á fót nefnd til að kanna starf­semi vöggu­stofa og mælt er fyrir um hvert mark­mið slíkrar könnunar sé og hvernig nefndin skuli haga störfum sínum.

Lagt er til að nefndin fái að­gang að gögnum í vörslu stjórn­valda sem varða starf­semi vöggu­stofanna og mælt er fyrir um að upp­lýsinga­lög gildi ekki um starf­semi nefndarinnar.

Katrín Jakobs­dóttir sagðist vænta þess að sam­staða væri um frum­varpið innan allra þing­flokka.

„Þetta er dökkur blettur á sögu barna á Ís­landi og það er mjög mikil­vægt bæði fyrir börnin og for­eldra þeirra sem tengjast vöggu­stofunum, það er mjög mikil­vægt fyrir þau að við upp­lýsum þetta mál,“ sagði for­sætis­ráð­herra og lauk orðum sínum á því að hún vænti þess að frum­varpið myndi njóta vel­vildar allra þing­flokka og lagði til að því yrði vísað til alls­herjar- og mennta­mála­nefndar.

Frum­varp for­sætis­ráð­herra má lesa á vef Al­þingis.