Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, kveðst ekki sjá á­stæðu til að leggja fram til­lögur um hertari að­gerðir innan­lands á þessari stundu. „Eins og áður hefur komið fram er ég þó til í að leggja fram til­lögur ef á­stand fer versnandi.“

Það sé því mikil­vægt að allir passi sig á­fram að forðast allar hópamyndanir og virði allar sótt­varnar leið­beiningar.

Síðast­liðinn sólar­hring greindust tólf innan­lands­smit og þar af voru tíu í sótt­kví. „Lík­legt er að bæði smitanna sem greindust utan sótt­kvíar tengist fyrri hóp­smitun,“ segir Þór­ólfur.

Síðast­liðna fjóra daga hafa 75 ein­staklingar greinst innan­lands og þar af voru 58 í sótt­kví. „Þar var um að ræða tengsl við þrjár hóp­sýkingar sem hafa verið til um­fjöllunar síðast­liðna daga,“ út­skýrði Þór­ólfur.

„Svo virðist sem hóp­smit séu nokkuð af­mörkuð en frekari smit eiga þó eftir að koma í ljós núna á næstu dögum.“ Næstu dagar muni skera úr um hvort tekist hafi að koma í veg fyrir frekari út­breiðslu.