Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segist ekki geta stutt sameiningu héraðsdómstólanna líkt og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur boðað. Starfshópur skilaði nýlega skýrslu um málið og hyggst Jón leggja fram frumvarp.

Stefnt er að því að til verði einn dómstóll, Héraðsdómur, í stað átta með yfirstjórn í Reykjavík. Þar sem dómstólarnir eru núna verði starfsstöðvar með lögbundinn starfsmannafjölda. Með þessu fengist svigrúm til að nýta mannauð betur og dómstigið yrði styrkt.

„Sporin hræða í þessa átt. Þegar verið er að sameina svona stofnanir,“ segir Halla. „Þetta eru háleit markmið og fín en af hverju er ekki hægt að gera þetta innan núverandi kerfis? Að styrkja héraðsdómstólana og fjölga starfsfólki.“ En Halla kemur frá Vestfjörðum þar sem héraðsdómurinn er nú þegar fámennur og veikur.

Nefnir hún að þetta mál sé sambærilegt og áætlun Jóns um sameiningu sýslumannsembætta, sem frumvarp liggur fyrir um. Býst hún við því að lögregluembættin séu næst á dagskrá. Verið sé að fækka löglærðu starfsfólki og sérfræðingum á starfsstöðvunum.

„Ég sé ekki hvernig á að færa verkefni út á land þegar það er búið að fækka sérfræðingum þar,“ segir hún og óttast að þetta nýja kerfi nagi starfsstöðvarnar að innan. „Það er verið að færa valdið á eina einingu.“

Telur Halla vel hægt að ná fram markmiðum um eflingu og mönnun landsbyggðarinnar innan núverandi kerfis og einungis það geti hún stutt.