Alþýðusamband Íslands (ASÍ) mótmælir fyrirhugaðri lækkun tryggingagjalds og segir lækkun þess þvert á atvinnugreinar ekki mæta kröfu sinni um sértækar aðgerðir til að mæta sértækum vanda.

Þá segja forsvarsmenn sambandsins að ekki komi til álita að fresta lengingu fæðingarorlofs eða skerða fæðingaorlofsgreiðslur til að mæta skerðingunni en tryggingagjaldið stendur undir þeim úrræðum.

Þetta kemur fram í viðbrögðum ASÍ við aðgerðapakka stjórnvalda sem kynntur var í dag. Er honum einkum ætlað að styðja við Lífskjarasamninginn en meðal þeirra aðgerða sem lagðar hafa verið fram er tímabundin lækkun tryggingagjalds.

Í meginatriðum fagnar sambandið öðrum tillögum ríkisstjórnarinnar en kallar í sumum tilfellum eftir úrbótum á þeim eða aðkomu að útfærslu þeirra.

Stjórnvöld sögð vanta heildarsýn

Í yfirlýsingu ASÍ eru sumar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sagðar bera merki þess að vera lítt úthugsaðar og þá er sögð vanta „heildarsýn um þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til vegna Covid-kreppunnar.

Samhliða þeim átta aðgerðum sem kynntar voru í dag fer ASÍ fram á að stjórnvöld gefi út vilyrði um að grunnbætur atvinnuleysistrygginga verði hækkaðar og sömuleiðis þak tekjutengdra atvinnuleysisbóta lág- og millitekjufólks.

Þá er leggur sambandið fram þá kröfu að í frumvarpi til starfskjaralaga verði kveðið á um févíti vegna launaþjófnaðar sem muni draga úr kostnaði við þung málaferli vegna launaþjófnaðar.

„Þá áréttar ASÍ mikilvægi þess að frumvarp um kennitöluflakk fari í gegnum Alþingi hratt og örugglega og frumvarp til húsaleigulaga sömuleiðis.

Fréttin hefur verið uppfærð.