Hópur landeigenda í Borgarfirði sem eru ósáttir við áform um uppsetningu vindmylla á Grjóthálsi mun funda í dag. Frestur til þess að skila inn athugasemdum til sveitarfélagsins, Borgarbyggðar, rennur út í lok mánaðar.

„Ég held að fólkið í sveitinni sé að vakna og átta sig á umfangi þess sem á að gera,“ segir Georg Magnússon á bænum Norðtungu 3. Hann sér Grjóthálsinn, og væntanlegar myllur, út um eldhúsgluggann sinn.

Vindmyllurnar verða sex talsins, fimm megavatta hver, í landi Hafþórsstaða og Sigmundarstaða, en hin fyrrnefnda er í eigu Helga Hjörvars fyrrverandi þingmanns. Helgi og Einar Örnólfsson, bóndi á Sigmundarstöðum, kynntu vindmyllugarðinn í samkomuhúsi sveitarinnar árið 2019 en aðrir kynningarfundir hafa ekki farið fram.

„Fyrir íbúana þarna í kring og alla í Borgarfirðinum vona ég að það verði hægt að snúa þessu við,“ segir Georg en það verði áskorun því að mikil undirbúningsvinna hafi farið fram á vegum sveitarfélagsins. Samkvæmt skýrslu VSÓ ráðgjafar er gert ráð fyrir að aðalskipulagsbreyting verði kláruð í haust og umhverfismati ljúki árið 2022.

SAXoPicture-071D02C0-180164073.jpg

Georg Magnússon Borgfirðingur

Georg segir vindmyllurnar munu gerbreyta ásýnd sveitarinnar til hins verra. Myllunum, sem verða umtalsvert hærri en Hallgrímskirkjuturn, myndi fylgja bæði sjón- og hljóðmengun og fuglalíf yrði í hættu að sögn Georgs. Þá myndi fasteignaverðið lækka og ferðaþjónusta minnka, svo sem laxveiði.

„Það kaupir enginn fasteignir eða jarðir með þetta í túnjaðrinum. Og hver vill veiða í Þverá eða Norðurá með þetta gapandi yfir sér?“ spyr Georg.

Vindmyllur hafa mikið verið til umræðu á Vesturlandi, til að mynda í Reykhólahreppi og Dalabyggð þar sem áform eru langt komin. Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur farið fram á íbúafund vegna áforma Dalabyggðar, einkum með tilliti til sjónmengunar.