Með óskum Landsvirkjunar um að fá Búrfellslund í nýtingarflokk í Rammaáætlun þrjú fer fyrirtækið gegn faglegu ferli sem er óásættanleg. Við erum alfarið á móti tilfærslum í nýtingaflokk framhjá rammaáætlun,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.

Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar sagði í liðnum mánuði að mikla vonir væru nú bundnar við að Búrfellslundur fari í nýtingarflokk eftir mikla endurhönnun á framkvæmdinni. Auður segist ekki hafa vitað til þess að Landsvirkjun væri að reyna fá hugmyndina inn í nýtingarflokk í ramma III sem Alþingi hefur nú til meðferðar. „ Með því er farið framhjá faglega ferlinu sem ramminn er og við erum algjörlega mótfallin því,“ leggur Auður áherslu á.

Fyrsta alvöru nýting vindorku

Tilefnið eru áform Landsvirkjunar um að reisa austan þjórsár vindmyllugarðinn Búrfellslund, á milli Búrfells og Sultartanga á Blönduveitusvæðinu. Með því yrði vindorka í fyrsta sinn nýtt til raforkuframleiðslu í einhverju magni eða að afli upp á 120 MW.

Endurhönnun Búrfellslundar

Auður segir viðbrögð Landsvirkjunar við umhverfismati á svæðinu í lok árs 2016 hafa þó verið til fyrirmyndar. „Þegar það kemur neikvæð niðurstaða úr umhverfismati, þá breytir maður því sem maður er að gera. Það er svo rosalega oft að framkvæmdaraðilar halda bara áfram og breyta engu og taka ekki mark á því sem kemur frá Skipulagsstofnun. Hér hefur Landsvirkjun endurhannað hugmyndina eftir umhverfismat“, segir Auður. Umfang garðsins var minnkað verulega, lundurinn tæki yfir minna svæði, eða 18 ferkílómetra í stað 33, og vindmyllurnar yrðu meira en helmingi færri. Sjónræn áhrif myndu einnig minnka verulega.

Mynd/Landsvirkjun - Tilbúin mynd

Ekki fleiri virkjanir á hálendinu

Þrátt fyrir endurbætur eftir umhverfismat telur Landvernd að ekki eigi að reisa lundinn því nóg sé komið af virkjunum á hálendi Íslands. „Þótt mikið sé manngert á svæðinu nú þegar og þar séu háspennulínur og virkjanir þá viljum við ekki að neitt bætist við það á hálendinu. Við viljum ekki að náttúruupplifun verði trufluð meira en nú er og getum ekki stutt það sem dregur úr víðerna- og óbyggðarupplifun hálendisins,“ segir Auður og ennfremur sé ekki þörf til staðar. „Við sjáum ekki þörfina fyrir frekari orkuvinnslu,“ segir hún og vísar í ummæli Bjarna Bjarnasonar forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur þar sem fram hafi komið að laus orka í landinu sé um 7 til 8 prósent af framleiðslunni og tæplega 80 prósent af henni fari til stóriðju. „Við sjáum því enga ástæðu til þess að fara í þessa framkvæmd“, segir Auður.

Tvær rannsóknarvindmyllur við Búrfell hafa verið þar um langt árabil.
Mynd/Landsvirkjun

Rammaáætlun þrjú síðan 2016

Rammaáætlun þrjú hefur verið send til umfjöllunar í Umhverfis-og samgöngunefnd Alþingis. Rammaáætlunin er frá því 2016 og loks til umfjöllunar núna en þar er Búrfellslundur í biðflokki. Vindmyllur eru nýr orkukostur hér á landi og að sögn Harðar, forstjóra núna orðinn samkeppnishæfur við vatnsaflsstöðvar og jarðvarmastöðvar. Vindmyllukosturinn hefur hingað til þótt kostnaðarsamur.

Búrfellslundur yrði vestantil á jaðri þess svæðis sem skilgreint yrði hálendisþjóðgarður í frumvarpi umhverfis-og auðlindaráðherra.