Verkefnishópur sem mat mismunandi kosti við gerð Seyðisfjarðarganga mælir með jarðgöngum undir Fjarðaheiði, auk ganga á milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og annarra þaðan yfir til Norðfjarðar.

Skýrsla hópsins var opinberuð í dag en Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnir hana á opnum fundi á Egilsstöðum í kvöld. Þá fékk sveitarstjórnarfólk kynningu í morgun.

Skýrsla verkefnishóps um Seyðisfjarðargöng

Göngin undir Fjarðaheiði yrðu lengstu göng landsins, eða 13,4 kílómetrar. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn við þau nemi 33-34 milljörðum króna. Heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður um 64 milljarðar en þessi þrjú göng yrðu samtals 25,7 kílómetrar að lengd.

Telur verkefnishópurinn að þessi lausn sé best til þess fallin að rjúfa einangrun Seyðisfjarðar og styrkja um leið allt samfélagið á Austurlandi. Þá er það mat hópsins að veggjöld séu fýsilegur kostur enda hafi íbúar lýst sig reiðubúna að greiða slík gjöld. Eru tekjur þeirra taldar geta staðið undir rekstri og viðhaldi gangnanna en litlu sem engu skila í stofnkostnað.

KPMG gerði sérstaka könnun á samfélagslegum áhrifum þar sem dregnar voru upp mismunandi sviðsmyndir um áhrif ólíkra valkosta. Þar kom fram sá vilji Austfirðinga að göng undir Fjarðaheiði yrðu sett í forgang.

Alls mat verkefnishópurinn fjóra ólíka kosti. Fyrsti valkosturinn var að eingöngu yrði ráðist í göng undir Fjarðarheiði. Annar valkostur er sá sem hópurinn mælir með. Þriðji valkosturinn fólst í jarðgöngum milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar, annarra undir Mjóafjarðarheiði milli Mjóafjarðar og Héraðs og þeirra þriðju milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar. Loks var valkostur um göng milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar og annarra milli Mjóafjarðar og Héraðs.