Tillaga um að byggja sjötíu íbúðir í miðbæ Akureyrar var lögð fyrir skipulagsráð bæjarfélagsins í vikunni. Samkvæmt henni yrðu íbúðirnar í sex hæða húsum með verslunum og þjónustu á fyrstu hæð. Við hlið húsanna yrði bílastæðahús með lyftu fyrir bifreiðar líkt og þekkist víða í erlendis en hefur, eftir því sem Fréttablaðið kemst næst, aldrei verið reist á Íslandi.

Hugmyndin var lögð fram af hálfu BB bygginga sem er eigandi landsvæðisins og H.S.Á. teiknistofu. Skipulagsráð tók vel í hugmyndirnar og lagði fyrir skipulagsfulltrúa að halda áfram að vinna að málinu. Ef af framkvæmdunum yrði yrðu húsin sem hýstu Borgarbíó og Sjallann rifin.

„Þetta fyrirkomulag með bílastæðalyftum hefur verið til staðar erlendis í langan tíma en ég er ekki viss um að þetta hafi verið reynt á Íslandi,“ segir Haraldur Sigmar Árnason hjá H.S.Á. teiknistofu, aðspurður hvort hann viti til þess að slík lyfta hafi verið tekin í notkun á Íslandi.

„Með því að byggja ramp upp á milli hæða ertu að fórna 30 bílastæðum sem er allt of mikið. Þessar lyftur eru ekki dýrar í sjálfu sér, því þetta eru bara tvær hæðir, þannig að þú þarft ekki hraðskreiða lyftu. Ætli þetta kosti ekki um 12-13 milljónir,“ segir Haraldur, spurður um kostnaðinn við slíka lyftu.