Landlæknir og skimunarráð leggja til breytingar á skipulagi skimunar fyrir krabbameinum. Markmið tillagna sem kynntar voru fyrir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í gær er að færa skipulagið nær því sem mælt er með í leiðbeiningum ESB um skimanir.

Meðal tillagnanna er að Landlækni verði falið að skilgreina þau krabbamein sem skima skal fyrir. Þá er lagt til að sett verði á fót stjórnstöð skimunar sem taki yfir það starf sem Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands sinnir nú sem og rekstur Krabbameinsskrár.

Thor Aspelund, formaður skimunarráðs og prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, leggur áherslu á samvinnu allra þeirra aðila sem koma að málum. „Það er auðvitað mjög gott starf unnið með Krabbameinsskrána núna og það er hægt að byggja upp í kringum það. Það þarf ekki endilega að kollvarpa öllu en það þarfa að styrkja allar þessar einingar sem eru að vinna þetta,“ segir Thor.

Hann segir mikilvægt að halda vel utan um allar skráningar á skimunum. „Við þurfum að bæta okkur þegar kemur að skráningum. Við þurfum að vita meira hvernig okkur gengur með skimununum.“

Í tillögunum er einnig lögð áhersla á aðkomu heilsugæslunnar. „Við leggjum til að skimanir verði færðar meira út til heilsugæslunnar og þar yrði byrjað á skimun fyrir leghálskrabbameini. Annað myndi kannski fylgja á eftir síðar en þetta á ekkert að gerast allt í einu.“

Thor segir að Krabbameinsfélagið muni áfram gegna mikilvægu hlutverki en gert er ráð fyrir að skimun fyrir brjóstakrabbameini verði áfram í höndum félagsins.