Tuttugu og fjórir þingmenn úr fimm flokkum, Sjálfstæðisflokknum, Vinstri grænum, Framsókn, Miðflokknum og Flokki fólksins, leggja til að þjóðin greiði atkvæði um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slík tillaga er lögð fram á Alþingi, en í fyrra lögðu sextán þingmenn fram sömu tillögu. Nú eru fleiri þingmenn að baki tillögunnar, alls átta hafa bæst í hópinn frá því í fyrra, þar á meðal Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Líka og í fyrra er Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fyrsti flutningsmaður. Hópurinn vill bera upp eftirfarandi spurningu upp í þjóðaratkvæðagreiðslu:


„Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar?
    ▢ Já.
    ▢ Nei.“

Staðsetning flugvallarins hefur verið umdeild í nokkurn tíma og segir þingmannahópurin að mikilvægt sé að þjóðin fái að ákveða um næstu skref.

„Afar brýnt er að þjóðin fái tækifæri til þess að segja hug sinn varðandi helstu samgöngumiðstöð landsins og hafi þar með áhrif á endanlega niðurstöðu málsins,“ segir í greinargerðinni með tillögunni.