Helgi Gunn­laugs­son, prófessor í fé­lags­fræði við Há­skóla Ís­lands, og Helga Vala Helga­dóttir, al­þingis­kona, leggja til í Frétta­blaðinu í dag að sátta­miðlun verði notuð í auknum mæli í kyn­ferðis­brota­málum, sér­stak­lega þeim vægari og þar sem að brota­þoli og gerandi tengjast fjöl­skyldu­böndum.

Í sam­eigin­legri að­sendri grein þeirra segir að sam­hliða auknum frá­sögnum brota­þola af kyn­ferðis­brotum í #met­oo bylgjum síðustu ára hafi afjhjúpast van­máttur sam­fé­lagsins til að takast á við vanda­málið.

Þau benda á að sam­kvæmt nýjum fyrir­mælum ríkis­sak­sóknara frá 2021 er lög­reglu heimilt að beita sátta­miðlum í ýmsum brota­flokkum al­mennra hegningar­laga en ekki vegna brota er falla undir kyn­ferðis­brota­kafla laganna, að undan­skildum blygðunar­semis­brotum.

Vægari brot heppileg

Þau Helgi og Helga Vala telja að mögu­lega þurfi að breyta því.

„Vægari kyn­ferðis­brot geta að mörgu leyti verið heppi­leg fyrir sátta­miðlun þar sem hefð­bundin leið gegnum réttar­vörslu­kerfið er yfir­leitt bæði þung og tíma­frek en jafn­framt veru­lega í­þyngjandi upp­lifun fyrir þol­endur. Kröfur um sönnunar­byrði í saka­málum eru stífar enda eiga þær að vera það. Í þessum mála­flokki er oftar en ekki um að ræða orð gegn orði, játningar fá­tíðar og engin vitni. Megin­regla saka­mála­réttar er að allur vafi um sekt skuli metinn sak­borningi í vil og þess vegna er gerð sú krafa af réttar­vörslu­kerfinu að lög­full sönnun teljist komin fram svo málið komist fyrir dóm og sak­felling náist. Stálin stinn mætast í réttar­salnum og þolandinn situr oft uppi með miskann og skömmina en engan lög­form­legan geranda. Þol­endur veigra sér því oft við að feta þessa grýttu leið einkum þegar um vægari brot er að ræða en einnig þegar þolandi og gerandi tengjast vina- eða fjöl­skyldu­böndum,“ segja þau í greininni og í­treka að sam­þykki þolanda fyrir þessari lausn sé alltaf lykil­at­riði í sátta­miðlun og for­senda þess að sátta er leitað.

„Sátta­miðlun getur opnað nýja leið fyrir bæði þol­endur og ger­endur. Brota­þoli og brota­maður fá þannig aukið for­ræði yfir málinu og það verður þeirra hlut­skipti að komast að sam­komu­lagi í sam­einingu um sátt fyrir milli­göngu sátta­aðila.“

Þau segja að ýmis skil­yrði verði að upp­fylla í sátta­miðluninni eins og að sér­fróðir aðilar sjái um hana sem hafi góða þekkingu á eðli kyn­bundins of­beldis. Þau segja að enginn verði neyddur í sátta­með­ferð og að ef að enginn sátt náist þá fari málið sína leið í réttar­vörslu­kerfinu.

Þá benda þau á rann­sóknir frá bæði Kanada og Banda­ríkjunum, þar sem sátta­miðlun tíðkast í slíkum málum, að hún getur hjálpað bæði þol­endum og ger­endum. Þol­endum að takast á við lífið að nýju og fyrir ger­endur opnar hún leið fyrir far­sælli endur­komu í sam­fé­lagið.

„Sátta­miðlun er heimil á Ís­landi en lítið notuð nema einna helst í mál­efnum ungra brota­manna og ekki í kyn­ferðis­brotum eins og áður sagði. Árangurinn hefur verið góður og aðilar mála lýst sig á­nægða með lyktir mála. Sér­fræði­hópar sem metið hafa úr­ræðið og aðilar á­kæru­valds á Ís­landi hafa allir mælt með aukinni notkun sátta­miðlunar í saka­málum. Þol­endur kalla á breytt vinnu­brögð – er ekki tíma­bært að leggja til þessar breytingar?“ spyrja þau að lokum í greininni sem má lesa hér.