Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) leggur til að miklar tíðablæðingar verði skráðar sem möguleg aukaverkun af óþekktri tíðni við notkun Covid-19 bóluefnanna Cominaty og Spikevax.

Þetta kemur fram á vef Lyfjastofnunar.

Miklar umræður sköpuðust í kjölfar bólusetninga á milli kvenna vegna röskunar á tíðahring eftir bólusetningar vegna Covid-19. Sérstök Facebook-síða var stofnuð þar sem konurnar gátu borið saman bækur sínar vegna aukaverkana.

Konurnar kröfðust rannsóknar á málinu

Samkvæmt vef Lyfjastofnunar eru miklar tíðablæðingar þegar blæðingar standa lengur eða magn tíðablóðs er meira en vanalega og þær hafa áhrif á lífsgæði einstaklings.
„Tilkynnt hefur verið um slík tilfelli eftir grunn-, og örvunarbólusetningar með bæði Comirnaty og Spikevax,“ segir jafnframt á vef stofnunarinnar.

Niðurstaða úr klínískum rannsóknum var sú að það væri raunhæfur möguleiki að tengsl væru á milli bólusetninga með þessum bóluefnum og miklum tíðablæðingum. Ekkert benti til að aukaverkanirnar sem tilkynntar hafi verið hefðu áhrif á frjósemi. „Einnig sýndu tiltæk gögn um mRNA COVID-19 bóluefni fram á að þau séu örugg á og eftir meðgöngu,“ segir á vef Lyfjastofnunar.

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu tekur fram að öll gögn bendi til þess að ávinningurinn sé töluvert meiri en áhættan af notkun bóluefnanna.

Heilbrigðisstarfsfólk og almenningur er beðið um að halda áfram að tilkynna grun um aukaverkun ef miklar tíðablæðingar verða eftir bólusetningu.

PRAC muni halda áfram að fylgjast með tilfellunum og uppfæra tilmæli sín ef þörf þyki.