Næstu áramót verða barnaverndarnefndir lagðar niður og þrjú umdæmaráð taka við. Eitt verður í Reykjavík, annað fyrir höfuðborgarsvæðis og svo það þriðja fyrir landsbyggðina. Þetta kemur fram í grein Katrínar Helgu Hallgrímsdóttur í dag en hún er framkvæmdastjóri barnaverndar í Reykjavík.
Í grein Katrínar útskýrir hún að hlutverk um umdæmisráða verði afmarkað við að kveða upp úrskurði um tilteknar íþyngjandi ráðstafanir í barnaverndarmálum og að fyrst og fremst sé um að ræða ákvarðanir um vistun barna utan heimilis og ákvarðanir um umgengni kynforeldra við börn í varanlegu fóstri.
„Þetta úrskurðarvald hefur hingað til verið á hendi barnaverndarnefnda,“ segir Katrín Helga.
Hún segir að umdæmisráðin verða sjálfstæðar stjórnsýslueiningar á sveitarstjórnarstigi, aðskildar frá starfsemi barnaverndarþjónustu, sem fer með alla vinnslu barnaverndarmála frá degi til dags.
„Í dag eru þeir starfsmenn sem sinna barnaverndarmálum frá degi til dags starfsmenn barnaverndarnefnda. Um áramót verður því formlegur aðskilnaður milli starfsmanna barnaverndar og þeirra sem sjá um að kveða upp úrskurði í barnaverndarmálum,“ segir Katrín.
Þrír fagaðilar í hverju ráði
Hvað varðar skipan umdæmisráðanna verður hvert ráð skipað þremur aðilum: Lögfræðingi sem er formaður, félagsráðgjafa og sálfræðingi.
„Í barnaverndarlögum eru gerðar ríkar kröfur um fagþekkingu og hæfni þessara aðila. Sveitarfélögum er falið að koma á fót umdæmisráðum og stefnir allt í að um áramót verði starfandi þrjú umdæmisráð á landinu. Eitt umdæmisráð í Reykjavík, annað fyrir höfuðborgarsvæðið utan Reykjavíkur og þriðja sem verði sameiginlegt umdæmisráð landsbyggðarinnar,“ segir Katrín Helga og að það verði allra þyngstu mál barnaverndar sem muni rata fyrir þessi ráð og að þau þurfi því að hafa burði til að leysa málin bæði skjótt og vandlega.
„Það er von okkar allra sem störfum að barnaverndarmálum að tilkoma umdæmisráða verði til þess fallin að auka traust til barnaverndarstarfs í landinu. Barnavernd fer með mikið vald og það eru sjálfsögð réttindi, bæði foreldra og barna, að fá endurskoðun faglegs og sjálfstæðs stjórnvalds á þeim ákvörðunum sem þar eru teknar,“ segir Katrín Helga að lokum í greininni.
Breytingin er hluti af víðtækum breytingum á barnaverndarkerfinu sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur unnið að síðustu ár.