Arn­þór Jóns­son, for­maður SÁÁ, hefur boðað aðal­stjórn sam­takanna til fundar á morgun klukkan 17. Þar mun með­limur aðal­stjórnarinnar leggja fram van­trausts­til­lögu geng honum sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins.

Á­stæða fundarins er upp­sögn yfir­læknis hjá Vogi, Val­gerðar Á. Rúnars­dóttur, og úr­sögn þriggja með­lima fram­kvæmdar­stjórnar SÁÁ í kjöl­farið. Heimildir Frétta­blaðsins herma þá að fleiri innan fram­kvæmda­stjórnarinnar í­hugi stöðu sína.

Arnþór sagði að hann telji úrsagnirnar úr framkvæmdastjórninni ekki beintengdar uppsögn Valgerðar í samtali við Fréttablaðið í gær.

Til á­greinings kom milli Val­gerðar og Arn­þórs í kjöl­far sam­þykktar fram­kvæmda­stjórnarinnar um niður­skurð í starf­seminni í ár, að hluta til vegna kóróna­veirufar­aldursins. Stjórnin fól Val­gerði að leiða þær breytingar en henni þótti for­maðurinn grípa fram fyrir hendur sér þegar hann sagði upp starfs­mönnum án sam­ráðs við hana.

Í sam­tali við Frétta­blaðið í gær sagði Arn­þór að ein þessara þriggja úr­sagna fram­kvæmdar­stjórnar­með­limanna hefði ekki komið sér á ó­vart. Hinar tvær hafi hins vegar gert það. Hann sagðist ekki halda að þær tengdust beint upp­sögn Val­gerðar þrátt fyrir heimildir Frétta­blaðsins um annað.

Valgerður sagði upp vegna ágreinings við Arnþór.

48 manna fundur í samkomubanni


Ó­venju­legt er að fundur aðal­stjórnar SÁÁ sé boðaður með svo skömmum fyrir­vara en í henni sitja 48 ein­staklingar. Formanni ber þó skylda til að kalla aðalstjórn saman ef meðlimur framkvæmdastjórnar segir sig úr henni. Ljóst er að erfitt verður að halda fundinn í ljósi sam­komu­bannsins sem nú er í gildi en sam­kvæmt því mega fleiri en 20 manns ekki koma saman í einu og verða að halda tveggja metra fjar­lægð hver frá öðrum.

Fundurinn mun þó fara fram í þremur mis­munandi rýmum og hópnum þannig skipt upp svo ekki verði brotið gegn sam­komu­banninu. Allir með­limir fram­kvæmda­stjórnarinnar sem sögðu sig úr henni í gær sitja í aðal­stjórninni enda eru þeir kosnir úr henni til setu í fram­kvæmda­stjórn.