Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar þess efnis að hafinn verði undirbúningur þess að endurvekja aðildarviðræður við Evrópusambandsins.

Í greinargerð með tillögunni segir að markmið hennar sé að uppfylla vilja Alþingis sem lýst var með þingsályktun sem samþykkt var 16. júlí 2009. Alþingi hafi ekki ályktað á annan veg síðan. Þingflokkurinn leggur til að forsætisráðherra verði falið að skipa nefnd sem stýri undirbúningsvinnu í samstarfi við einstök ráðuneyti. Nefndin semji svo tillögu til þingsályktunar um endurupptöku aðildarviðræðna og sú tillaga verði borin undir þjóðaratkvæði. Að mati þingmannanna hefði átt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í upphafi þess ferlis árið 2009 en það var aldrei gert.

„Tilgangurinn er að styrkja fullveldi landsins, efla stjórnmálaleg tengsl, treysta varnir, örva viðskipti, bæta efnahag og tryggja framgang markmiða Íslands í loftslagsmálum" segir í greinargerð með tillögunni. Einnig er vísað til heimsfaraldursins og áhrifa hans á efnahag landsins.

„Afleiðingar kórónuveirufaraldursins hafa gjörbreytt efnahagslegum aðstæðum. Ísland þarf af þeim sökum að nýta öll möguleg tækifæri sem örvað geta nýsköpun, eflt viðskipti og styrkt hagvöxt. Aukin alþjóðleg samvinna er óhjákvæmileg í þeim tilgangi. Loftslagsmálin kalla einnig á að ný skref verði stigin á þessu sviði. Lokaskrefið til fullrar aðildar að Evrópusambandinu er nærtækasti og áhrifaríkasti kosturinn í þessu efni," segir í tillögunni.

Viðreisn leggur til að íslenska krónan verði fasttengd evrunni.

Gjaldmiðilsmál eru brýnasta verkefnið

Þá segir í tillögunni að efnahagsleg rök standi til þess að málinu verði hraðað eins og kostur er.

„Breytingar í gjaldmiðilsmálum eru brýnasta verkefnið eins og málum er komið. Flutningsmenn hafa því samhliða þessari tillögu lagt fram tillögu til þingsályktunar um viðræður við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum og gagnkvæmar gengisvarnir (45. mál), sem leitt gæti til þess að íslenska krónan yrði svo fljótt sem verða má fasttengd evru með raunhæfum hætti. Náist skjótur árangur í gjaldmiðilssamstarfinu skapast svigrúm til þess að undirbúa vandlega ákvarðanir um lokaskref til fullrar aðildar að Evrópusambandinu," segir í greinargerðinni um gjaldeyrismálin.

Frá samstöðumótmælum árið 24. febrúar 2014 á Austurvelli.
Fréttablaðið/Pjetur

Vilja bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna

Alþingi samþykkti árið 2009 að ganga til viðræðna við ESB um aðild en sú ákvörðun var ekki borin undir þjóðina. Árið 2014 lagði utanríkisráðherra fram tillögu um að umsóknin yrði dregin til baka. Sú tillaga dagaði uppi á þingi og varð aldrei útrædd. Það er mat þingmanna Viðreisnar að samþykkt Alþingis frá árinu 2009 standi því óhögguð.

Fjallað er um þennan feril og næstu skref eins og flutningsmenn sjá fyrir sér í tillögunni:

„Tillaga utanríkisráðherra frá 2014 mætti harðri andstöðu í þjóðfélaginu. Alls skrifuðu 53.555 Íslendingar undir áskorun þar sem þess var krafist að fram færi þjóðaratkvæði um það hvort halda ætti áfram viðræðum. Vorið 2015 skrifaði utanríkisráðherra bréf til formanns ráðherraráðs Evrópusambandsins. Þar sagði að ríkisstjórnin hefði ekki áform um að hefja aðildarviðræður að nýju og ekki bæri af þeim sökum að líta á Ísland sem umsóknarríki.

Við myndun ríkisstjórnar 2016 var kveðið á um það í stjórnarsáttmála að Alþingi gæti fyrir lok þess kjörtímabils samþykkt að efna til leiðbeinandi þjóðaratkvæðis um framhald aðildarviðræðna.

Sú ríka krafa, sem fram kom með undirskriftasöfnuninni 2014, að þjóðin fengi að greiða atkvæði um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið, verður ekki virt að vettugi.

Í ljósi þess hversu langur tími er liðinn frá samþykkt þingsályktunarinnar 2009 leggja flutningsmenn til þá málsmeðferð að Alþingi samþykki, að loknum nauðsynlegum undirbúningi, nýja tillögu um framhald aðildarviðræðna. Gildi hennar verði eigi að síður háð samþykki þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu. Þar yrði um að ræða bindandi þjóðaratkvæði. Gildistaka endanlegs aðildarsamnings yrði síðan á ný háð samþykki Alþingis og þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu. "

Tillöguna og rökstuðning með henni má lesa hér.