Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp um breytingar á barnaverndarlögum. Breytingarnar fela í sér að tálmun eða takmörkun á umgengni við börn verði refsiverð.
Er því ætlað með frumvarpinu að festa í lög að tálmun umgengni varði sektum eða fangelsi allt að fimm árum, en slík brot sæti aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru barnaverndaryfirvalda til lögreglu.
Sambærilegt frumvarp var einnig lagt fram á 146. löggjafarþingi, 2016-2017, en þá voru flutningsmenn þess úr Sjálfstæðisflokknum, Bjartri framtíð og Framsóknarflokknum. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Brynjar Níelsson. Auk þess flytja Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason og Páll Magnússon frumvarpið.
Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að gildissvið um tálmun verði víkkað. Þannig verði það ekki lengur einskorðað við þær aðstæður þegar lögheimilisforeldri tálmar eða takmarkar umgengni heldur nær það jafnframt yfir tálmun eða takmörkun umgengni af hálfu umgengnisforeldris.
Þá er vitnað í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem kveðið er á um að börn eigi rétt til að hitta báða foreldra sína og að slíkt skiptu verulegu máli fyrir velferð þeirra. Það sé því andleg vanræksla fái þau ekki að njóta þess réttar.