Lögmannsteymi tónlistarrisanna Warner og Universal vill nú að dómari í lagastuldarmáli Jóhanns Helgasonar gegn þeim og höfundum lagsins You Raise Me Up taki til skoðunar niðurstöðu í nýlegu dómsmáli sem höfðað var gegn hljómsveitinni Led Zeppelin.

Allt frá því munnlegur málflutningur lögmanna Jóhanns og gagnaðila hans varðandi frávísunarkröfu í málinu um lagið Söknuð fór fram í dómsal í Los Angeles 6. desember síðastliðinn, hefur úrskurðar um frávísunina verið beðið. Ekkert bólar enn á niðurstöðunni þótt dómarinn hafi í desember sagt að hennar væri að vænta eftir um það bil hálfan mánuð.

Lögmenn Universal og Warner lögðu í síðustu viku fram nýtt skjal sem styður þá kröfu að máli Jóhanns verði vísað frá. Í skjalinu er vitnað til niðurstöðu dómstóls þar vestra um að lagið Stairway to Heaven með Led Zeppelin frá árinu 1971 feli ekki í sér stuld á laginu Taurus eftir gítarleikara hljómsveitarinnar Spirit. Byggist sá dómur meðal annars á því að svokölluð aðgengisregla eigi ekki við í því máli. Aðgengisreglan kveður á um að eftir því sem aðgengi þess sem sakaður er um stuld að viðkomandi lagi er meira, þess minni þurfi líkindi með lögum að vera til þess að um stuld teljist að ræða.

„Dómstóllinn útskýrði að aðgengisreglan sé ekki hluti af höfundarréttarlögum, sé órökrétt og skapi óvissu fyrir dómstólinn og málsaðilana,“ segir í hinu nýja skjali.

Krafa um að þetta nýja skjal verði ekki hluti af málsgögnunum hefur þegar verið gerð af hálfu lögmanns Jóhanns, Michaels Machat. Segir Machat að í skjalinu sé látið undir höfuð leggjast að taka fram að í dóminum í Led Zeppelin-málinu sé í lykilatriðinu vitnað í eldri dóma, þann elsta 36 ára gamlan. Þess vegna hafi sú túlkun legið fyrir allan tímann og of seint sé að bera hana á borð núna sem andsvar.

Þá segir lögmaður Jóhanns að í Led Zeppelin málinu hafi verið tekist á um miklu minni líkindi heldur en séu milli laganna Söknuðar og You Raise Me Up. Fram hjá því atriði komist lögmenn andstæðinga Jóhanns ekki. Þar af leiðandi sé frávísunarkrafan áfram óviðeigandi, burtséð frá því hvort dómurinn taki þetta nýja skjal til skoðunar. „Að öllu samanlögðu er niðurstaðan sú að hér takast sérfræðingar á og að málið þarf að leysa af kviðdómi,“ segir Michael Machat.

Þetta nýja útspil lögmanna Universal og Warner mun væntanlega leiða til þess að málið tefst enn frekar. Að auki eru nú miklar hömlur í samfélaginu í Kaliforníu vegna útbreiðslu COVID-19 og seinkar það líklega málinu sem átti samkvæmt áætlun frá í fyrra að leiða til lykta í desember á þessu ári.