Tvö af stærstu gámaskipum Eimskipafélagsins, Laxfoss og Goðafoss, voru rifin niður í skipakirkjugarði á 10 km strönd í bænum Alang á Indlandi. Aðferðin er umdeild og samræmist ekki Evrópulöggjöf sem Ísland hefur lögfest. Þetta kom fram í þætti Kveiks á RÚV í gærkvöldi.

Eimskip seldi skipin tvö til alþjóðlegs fyrirtækis sem heitir GMS og sögðust ekki hafa vitað að skipin yrðu sett í endurvinnslu. GMS er hins vegar þekkt fyrir kaup á skipum sérstaklega til endurvinnslu.

BBC birti ítarlega grein fyrr á árinu um umdeilda starfsemi GMS sem heitir Breaking Bad: Uncovering The Oil Industry‘s Dirty Secret.

Í frétt Finance Uncovered frá 2019 kemur fram að GMS er þekktur milliliði fyrir stórfyrirtæki sem vilja losa sig við stór skip. Var vitnað í samning spænska olíurisann Cepsa við GMS og skipafyrirtækið Conquistador sem hafði lekið. Skip væru keypt og skráð á önnur lönd áður en þeim væri siglt í skipakirkjugarð.

Ofarlega á vefsíðu GMS má finna upplýsingar um endurvinnslustarfsemi fyrirtækisins.
Mynd/Skjáskot

Þegar RÚV óskaði eftir viðtali við forstjóra Eimskip varðandi niðurrif skipanna á Indlandi sagði Eimskip að GMS, nýr eigandi skipanna, bæri ábyrgð. Var vitnað í Hong Kong sáttmála (e. Hong Kong International Convention for the safe and environmentally sound recycling of ships) um örugga og umhverfisvæna endurvinnslu skipa sem GMS segist fylgja.

Líkt og kemur fram í þætti Kveiks hefur sá sáttmáli ekki öðlast gildi og eru engir viðurkenndir vottunaraðilar sem framfylgja honum. Auk þess fyglir Ísland Evrópulöggjöf sem heimilar ekki svokallaða þyngdaraflsaðferð sem sem notuð er í Alang, sem felur í sér að skip eru bútuð niður og látin falla í flæðarmálið. Því gæti fylgt losun olíu og þungmálma í jarðveg og sjó.

Goðafoss.

Hættulegasta starf í heimi

Skiparrif í Alang er talið eitt hættulegasta starf í heimi samkvæmt skýrslu frá alþjóðlegu verkalýðssamtökunum IndustriALLsem er Kveikur vísar í.

Ódýrt vinnuafl og nær engar mengunarvarnir tryggja besta verðið fyrir skipafélög. Í þætti Kveiks má sjá myndbrot af farandverkamönnum vinna við hættulegar aðstæður.

„Það eru engar varnir gegn spilliefnum. Ef það verður olíuleki eru sjávarföllin látin sjá um hann og flesta starfsmenn skortir hlífðarbúnað við hæfi og þeir verða fyrir eiturgufum; efnum sem valda veikindum mörgum árum síðar, eftir að þeir hafa starfað við endurvinnslustöðvarnar, “ sagði Ingvild Jenssen, framkvæmdastjóri Shipbreaking platform, um aðstæður í Alang í viðtali við Kveik.

Shipbreaking Platform eru samtök sem berjast gegn ómannúðlegum aðstæðum og umhvefismengun í skipakirkjugörðum.