Sigurður Héðinn, betur þekktur sem Siggi Haugur, opnaði flugu­hnýtinga­verk­stæði og verslun við Rauðar­ár­stíg í febrúar í fyrra. Hann er heims­þekktur í bransanum og hnýtti sína fyrstu flugu árið 1999 sem ber nafnið Haugur. Nafnið kom til þar sem flugan var hnýtt úr haug af af­göngum og er viður­nefni hans þaðan komið. Síðan þá hefur Siggi skapað sér sér­stöðu sem einn fremsti flugu­hnýtinga­maður landsins og þótt víðar væri leitað.

Nú fyrir jólin gaf Siggi út bókina Veiði, von og væntingar, þar sem hann fjallar um veiði­tækni, birtir flugu­upp­skriftir og fjallar um fram­tíð ís­lenska laxa­stofnsins.

Veiði, von og væntingar er þriðja bók Sigga Haugs á jafn­mörgum árum.
Mynd/Aðsend

Siggi er borgar­barn en flutti í sveit á áttunda ára­tugnum sem barn með móður sinni og syst­kinum. Móðir hans gerðist ráðs­kona á sveita­bæ í Vestur-Húna­vatns­sýslu og giftist svo bónda þar. Hann segir að frá því að hann renndi fyrst fyrir fisk í Víði­dals­á, einni þekktustu lax­veiði­á landsins, hafi veiðin átt hug hans allan. „Þá byrjaði bullið,“ segir Siggi.

Síðan þá hefur hann starfað sem veiði­leið­sögu­maður en ein á­stæða þess að hann opnaði verk­stæðið var að hann vildi sjá Reykja­vík í júlí en það hafði hann ekki gert í þrjá­tíu ár. Hann segir það hins vegar lítið hafa breyst þar sem hann vinni myrkranna á milli. „Dætur mínar þekkja ekkert annað.“

Opnaði viku fyrir Co­vid

Hug­myndin að verslunni kviknaði á flugu­hnýtinga­kvöldi í febrúar árið 2019. Þá segist hann hafa áttað sig á að hér væri markaður fyrir slíkan rekstur. „Ég horfði yfir salinn og hugsaði: Þetta er geð­veikt tæki­færi. Ég opnaði viku fyrir Co­vid og hugsaði: Hvað er ég nú búinn að koma mér út í? Það fyndna er að Co­vid hafði engin á­hrif og fyrsti mánuðurinn fór fram úr öllum væntingum,“ segir Siggi.

Þrátt fyrir að Haugur sé sköpunar­verk Sigga segir hann aðra fram­leiða fluguna í ó­þökk sinni. „Það er vanda­málið sem ég á við að stríða. Það er ekkert launungar­mál. Ég á Hauginn. En það eru allir að fram­leiða þetta og selja. Þetta er eins og ég tæki lag eftir Bubba og henti á plötu. Ég held að það yrði hröð leið niður í héraðs­dóm. Menn segja að þetta sé bara fluga en í mínum huga er þetta sköpun. Það er frekar fúlt þegar menn taka sér þetta bessa­leyfi.“

Siggi veiddi þennan stærðarinnar lax á flugu sem heitir Gló og er eftir Þor­björn Helga Þórðar­son, sem þekktur er sem Reiða öndin.
Mynd/Hilmar Hansson

Gæði minnka og verð hækkar

Siggi segir að í far­aldrinum hafi á­hugi Ís­lendinga á stang­veiði og flugu­hýtingum aukist gríðar­lega, mikil ný­liðun sé í sportinu og konum hafi fjölgað. Hann segir verð á veiði­leyfum þó vera vanda­mál og koma í veg fyrir að hinn venju­legi Ís­lendingur geti stundað stang­veiði. „Það er eigin­lega búið að skáka okkur út af borðinu í lax­veiðinni. Við erum aftur komnir inn á jaðar­tímana, endann og byrjunina á veiði­tíma­bilinu. Gæðin eru alltaf að minnka en verðið er alltaf að hækka,“ segir hann.

„Þetta er rosa­lega stórt sam­fé­lag, miklu stærra en fólk heldur. Þetta eru tugir þúsunda manna, bæði karlar og konur, sem stunda þetta sport sem er í gríðar­legri sókn, sér í lagi silungs­veiði.“ Á undan­förnum árum hefur nálgun fólks að stang­veiði breyst. „Þetta eru ekki bara ein­hverjar fyllerís­ferðir. Fólk er að fara að veiða. Það er til batnaðar.“

Konan kaffi­skaði karlinn

Þrátt fyrir að fleiri konur stundi nú stang­veiði er hún enn nokkuð karl­læg. „Ég veit ekki hvaða hindrun það er sem þarf að brjóta. Það virðist sem það sé skrýtið við­horf hjá karl­kyns veiði­mönnum, ef það kemur kona inn: „Hvað ert þú að vilja upp á dekk?“ Konur eru miklu meiri „preda­torar“ en við, það er miklu meira frumeðli í konunni en í karl­manninum. Við erum að leika okkur en þær eru að afla sér matar. Þetta er alls ekki meint á nei­kvæðan hátt. Ég hef verið með hjón þar sem konan hlustaði á allt sem ég sagði og hún kaffi­skaði karlinn. Karlinn ætlaði að gera þetta á sinn hátt því hann var „macho“. Ég var með þau í sex daga, hún var með 22 fiska en hann níu eða tíu.“

Siggi Haugur gerði sína fyrstu flugu úr haug af af­göngum og er nafnið þaðan komið.
Fréttablaðið/Valli

Lax­eldi í sjó galin hug­mynd

Miklar um­ræður hafa verið um lax­eldi í sjó og á­hrif þess á ís­lenska lax­veiði­stofninn. Siggi hefur á þessu sterkar skoðanir.

„Ég er al­gjör­lega tals­maður þess að við eigum ekki að vera með lax­eldi í sjó – Þetta er bara galin hug­mynd. Það eru nokkur sam­tök sem berjast gegn þessu og ég spyr þeirrar á­leitnu spurningar: Hvar eru Bænda­sam­tökin? Af hverju heyrist ekkert frá þeim? Það eru 1.850 lög­býli sem hafa tekjur af lax­veiði eða stang­veiði. Af hverju heyrist ekkert í þeim? Er þetta eitt­hvað sem þeir þora ekki að taka á?“

Siggi segist alltaf spyrja á veitinga­stöðum hvaðan laxinn, sem þar sé í boði, sé fenginn og panta sér aldrei slíkt ef fiskurinn er úr sjó­eldi. Eldis­fyrir­tækin þurfi að átta sig á að valdið sé neyt­enda og þeir séu margir hverjir reiðu­búnir að borga hærra verð fyrir fisk sem alinn er á landi.

„Tíðar­andinn hefur breyst, það hefur allt breyst, það er allt að breytast og það er eðli þróunarinnar. Það koma nýjar hug­myndir, nýjar á­herslur. Þess vegna er lax­eldi í sjó tíma­skekkja að mínu viti. Ég veit vel að það er miklu ó­dýrara fyrir fyrir­tækin að vera með eldi í sjó. Ætlarðu að stúta einni at­vinnu­grein fyrir aðra? Kannski er lax­eldið verð­mætari at­vinnu­grein en stang­veiði. Þá verðum við að hugsa til þess: Hver er fórnar­kostnaðurinn? Hvað gerist ef eitt­hvað fer úr­skeiðis?“

„Ég er al­­gjör­­lega tals­­maður þess að við eigum ekki að vera með lax­eldi í sjó – Þetta er bara galin hug­­mynd“, segir Siggi Haugur.
Mynd/Hilmar Hansson

Huga þarf að öðru en hagnaði

„Við getum leyst stóran hluta af lofts­lags­vánni með því að setja kjarn­orku­ver um alla Evrópu. Kjarn­orka er ó­dýrasta og hreinasta orka sem þú færð en ef eitt­hvað gerist, þá erum við „fucked up“. Þetta er það ná­kvæm­lega sama, ef þú setur þetta allt í sam­hengi þá er þetta allt svo bilað. Það er ekkert viður­kennt að opna kjarn­orku­ver í gegnum alla Evrópu og fram­leiða þannig ó­dýrustu orku sem til er, út af hættunni. Af hverju er þá viður­kennt að vera með lax­eldi í sjó, vitandi það að þetta er tifandi tíma­sprengja? Við höfum dæmi frá Noregi, frá Skot­landi, frá Síle, fullt af þessum dæmum. Það er ekkert sem breytir hegðun fyrir­tækja, þau eru peninga­drifin – ekkert annað. Þau keyra á­fram á hagnaði og gera allt til að auka arð­semi. Það er tíma­skekkja.“

Ís­land er Mekka stang­veiðinnar

Hann segir mikið undir og að tryggja þurfi að Ís­land haldi sér­stöðu sinni sem stang­veiði­á­fanga­staður á heims­mæli­kvarða.

„Ís­land er Mekka stang­veiðinnar. Það er bara þannig. Við höfum allt sem við þurfum að hafa. Af hverju getur ekki verið sátt um að við verndum þessa at­vinnu­starf­semi, hugsum um hana? Af hverju getum við ekki fengið heild­ræna mynd á þetta og á­kveðið að lax­eldi í sjó á Ís­landi sé bannað? Alveg eins og það er bannað að vera með neta­veiði í sjó ná­lægt lax­veiði­ám. Hver er munurinn?“ spyr Siggi.

„Við megum ekki drepa lax í sjó. Ef við ætlum að fara alveg eftir strangri túlkun laganna, þá væri tækni­lega hægt að segja að lax­eldi í sjó sé ó­lög­legt af því að þú drepur laxinn í sjónum. Þetta er bara svona fílósófía.

Það breytist ekki öðru­vísi en að laga­ramminn breytist. Ég veit vel, alveg sama hvaða stjórn­mála­flokkur það er, að hann fer ekki inn í Norð­vestur­kjör­dæmi með slag­orðið: „Segjum nei við lax­eldi í sjó.“ Það væri pólitískt sjálfs­morð. Þú þarft ekki að vera rosa­lega skarpur til að sjá það. Pressan þarf að koma annars staðar frá. Það átti að drjúpa smjör af hverju strái út af lax­eldi en svo koma slátur­skip frá Noregi, slátra fiskinum og sigla í burtu, þurfa ekki að borga hafnar­gjöld, þurfa ekki að gera neitt,“ segir hann að lokum.