Staðfest hefur verið að utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands, þeir Sergei Lavrov og Antony Blinken, töluðu að sögn miðilsins Reuters, saman í síma og samþykktu báðir að hittast í Reykjavík þann 20. maí. Þeir verða báðir hér á landi til að taka þátt í fundi aðildarríkja Norðurskautsráðsins sem fram fer í Reykjavík dagana 19. og 20. maí. Ísland lætur þá af formennsku sinni í ráðinu og taka Rússar við keflinu.
Samskipti Bandaríkjanna og Rússa hafa verið stirð upp á síðkastið vegna Úkraínudeilunnar. Hafa ríkin meðal annars beitt hvort annað þvingunum og hafa þau jafnframt rekið erindreka hvors annars úr landi.
Áður hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, sagst vilja beita sér fyrir því að koma á samtali milli stórveldanna tveggja.
Reykjavíkurborg hefur boðið fram Höfða fyrir fundinn en þar funduðu þeir Mikhail Gorbachev og Ronald Reagan árið 1986.
Guðlaugur Þór fagnaði þessum fréttum á samfélagsmiðli sínum í kvöld og sagði að um góð tíðindi væri að ræða.
Fréttin hefur verið uppfærð klukkan 18:51.
Það eru góð tíðindi að utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands fundi í Reykjavík.
Posted by Guðlaugur Þór Þórðarson on Wednesday, 12 May 2021