Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands (FVFÍ), segist hafa átt von á því að ríkisstjórnin myndi setja lög á verkfall flugvirkja.
„Við vissum á hverju við áttum von. Það breytti því ekki að við höfðum í sjálfu sér enga kosti til að vinna með,“ segir Guðmundur.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra tilkynnti að loknum ríkisstjórnarfundi í dag að frumvarp um að stöðva verkfall flugvirkja hefði verið lagt fram en flugvirkjar hafa verið í verkfalli síðan 5. nóvember.
Guðmundur segir hljóðið í flugvirkjum ekki gott eftir frétti dagsins enda lítið sem hægt sé að gera. „Nú er lausnin eiginlega úr höndunum á okkur með þessu útspili ríkisstjórnarinnar og dómsmálaráðherra,“ segir hann.
Segja ríkið að reyna koma flugvirkjum Gæslunnar úr FVFÍ
Í yfirlýsingu sem FVFÍ sendi frá sér í dag er því haldið fram að ríkið sé að reyna koma flugvirkjum Landhelgisgæslunnar úr Flugvirkjafélagi Íslands.
„Ríkið er með lögunum að aðstoða sjálft sig við samningagerð og það er aðeins eitt sem vakir fyrir, það er að koma flugvirkjum Landhelgisgæslunnar út úr samningsumhverfi Flugvirkjafélags Íslands,“ segir yfirlýsingunni.
„Samninganefnd Flugvirkja lagði fram í gær mjög einfalda uppsetningu af þriggja ára samning með tengingu við aðalkjarasamning Flugvirkjafélagsins, þeim samning var hafnað af hálfu ríkisins. Deilan snýst aðeins um eitt af hálfu ríkisins, það er að slíta tengingu við þann samningsgrunn sem flugvirkjar landhelgisgæslunnar hafa við aðra samninga flugvirkjafélagsins,“ segir þar enn fremur.
Þá er það mat FVFÍ að samninganefnd ríkisins hafi einnig haft það að leiðarljósi að slíta tengingu strax að ári ef innanhústilaga ríkissátta semjara hefði orðið að veruleika, því buðum við meiri festu með þriggja ára samning.
„Ráðherra hefur ekki á neinu stigi málsins haft samband við flugvirkja eða kynnt sér málið út frá sjónarmiðum beggja aðila. Sem er alveg nýtt þegar deilur af þessum toga hafa átt sér stað, þá hafa ráðherrar sett sig í samband og fengið fullan skilning á málinu og tekið svo afstöðu,“ segir í yfirlýsingu félagsins.
„Nú erum við komin á þann stað að ríkið ætlar sér þetta eina markmið, að rjúfa tengingu, sama hvað það kostar, Þau stéttarfélög sem hafa þurft að lúta þessum brögðum ríkisvaldsins seigja farir sínar ekki sléttar eins og fram hefur komið í máli Sjómannafélags Íslands, félagi Vélstjóra og Málmtæknimanna og Sjómanna og Vélstjórafélags Grindavíkur,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.