Guð­mundur Úlfar Jóns­son, for­maður Flug­virkja­fé­lags Ís­lands (FVFÍ), segist hafa átt von á því að ríkis­stjórnin myndi setja lög á verk­fall flug­virkja.

„Við vissum á hverju við áttum von. Það breytti því ekki að við höfðum í sjálfu sér enga kosti til að vinna með,“ segir Guð­mundur.

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, dóms­mála­ráð­herra til­kynnti að loknum ríkis­stjórnar­fundi í dag að frum­varp um að stöðva verk­fall flug­virkja hefði verið lagt fram en flug­virkjar hafa verið í verk­falli síðan 5. nóvember.

Guð­mundur segir hljóðið í flug­virkjum ekki gott eftir frétti dagsins enda lítið sem hægt sé að gera. „Nú er lausnin eigin­lega úr höndunum á okkur með þessu út­spili ríkis­stjórnarinnar og dóms­mála­ráð­herra,“ segir hann.

Segja ríkið að reyna koma flugvirkjum Gæslunnar úr FVFÍ

Í yfir­lýsingu sem FVFÍ sendi frá sér í dag er því haldið fram að ríkið sé að reyna koma flug­virkjum Land­helgis­gæslunnar úr Flug­virkja­fé­lagi Ís­lands.

„Ríkið er með lögunum að að­stoða sjálft sig við samninga­gerð og það er að­eins eitt sem vakir fyrir, það er að koma flug­virkjum Land­helgis­gæslunnar út úr samnings­um­hverfi Flug­virkja­fé­lags Ís­lands,“ segir yfir­lýsingunni.

„Samninga­nefnd Flug­virkja lagði fram í gær mjög ein­falda upp­setningu af þriggja ára samning með tengingu við aðal­kjara­samning Flug­virkja­fé­lagsins, þeim samning var hafnað af hálfu ríkisins. Deilan snýst að­eins um eitt af hálfu ríkisins, það er að slíta tengingu við þann samnings­grunn sem flug­virkjar land­helgis­gæslunnar hafa við aðra samninga flug­virkja­fé­lagsins,“ segir þar enn fremur.

Þá er það mat FVFÍ að samninga­nefnd ríkisins hafi einnig haft það að leiðar­ljósi að slíta tengingu strax að ári ef innan­hústi­laga ríkis­sátta semjara hefði orðið að veru­leika, því buðum við meiri festu með þriggja ára samning.

„Ráð­herra hefur ekki á neinu stigi málsins haft sam­band við flug­virkja eða kynnt sér málið út frá sjónar­miðum beggja aðila. Sem er alveg nýtt þegar deilur af þessum toga hafa átt sér stað, þá hafa ráð­herrar sett sig í sam­band og fengið fullan skilning á málinu og tekið svo af­stöðu,“ segir í yfir­lýsingu fé­lagsins.

„Nú erum við komin á þann stað að ríkið ætlar sér þetta eina mark­mið, að rjúfa tengingu, sama hvað það kostar, Þau stéttar­fé­lög sem hafa þurft að lúta þessum brögðum ríkis­valdsins seigja farir sínar ekki sléttar eins og fram hefur komið í máli Sjó­manna­fé­lags Ís­lands, fé­lagi Vél­stjóra og Málm­tækni­manna og Sjó­manna og Vél­stjóra­fé­lags Grinda­víkur,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.