Langlífi á þeim svæðum þar sem fólk er langlífast í heiminum stafar af því að umhverfið styður við góða heilsu. Þetta leiða rannsóknir Dans Buettner í ljós, en hann hefur einbeitt sér síðustu 15 ár að því að skoða það sem kallast „blá svæði“. Það eru þau svæði þar sem fólk lifir hvað lengst og er heilbrigðast; Okinawa í Japan, Sardinía á Ítalíu, Nicoya á Kosta Ríka, Ikaria á Grikklandi og Loma Linda í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Á öllum fimm bláu svæðunum er líkamleg virkni hluti af daglegu lífi fólks í staðinn fyrir að fólk stundi markvisst líkamsrækt. Á þeim gengur fólk mikið í sínu daglega lífi en þarf ekki að fara ferða sinna í bíl. Enn fremur er ekki óalgengt að íbúar rækti matjurtir í garðinum sínum.

Takmörkuð gögn liggja fyrir um hreyfingu Íslendinga í áranna rás og því er erfitt að segja til um hvernig þróunin hefur verið á síðustu árum og áratugum. Samanburður hefur einnig reynst erfiður þar sem mælitækin hafa verið að breytast og sömuleiðis viðmið um æskilega hreyfingu. Kannanir benda þó til að meirihluti fullorðinna hreyfi sig ekki í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu og ýmsar vísbendingar eru um að kyrrseta hafi aukist í daglegu lífi landsmanna, samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis.


Samkvæmt rannsóknum í Banda­ríkjunum segjast 73% þurfa að hreyfa sig meira og yfir 60% lýsa sjálfum sér sem kyrrsetufólki. Venjulegar ráðleggingar eru að segja fólki að byrja að stunda líkamsrækt hvort sem það er á eigin vegum eða í líkamsræktarstöð, samkvæmt Buettner. Hann segir að einstaklingsráðleggingar eins og þessar breyti ekki stóru myndinni; erfitt sé að fá 330 milljónir Bandaríkjamanna, þar sem stór hluti viðurkennir að vera kyrrsetufólk, til að taka upp líkamsrækt. Hann telur að lausnin sé fólgin í því að breyta borgunum, sem fólk býr í. Borgir hafi verið hannaðar fyrir bíla síðustu áratugi og fólk keyri meira og gangi minna en áður. Helmingur bandarískra barna gekk í skólann árið 1970 en nú er sú tala 10%.

Mynd frá Sardiníu.
Nordicphotos/Getty

Sums staðar í Bandaríkjunum er verið að gera vel eins og í Boulder í Colorado, San Luis Obispo í Kaliforníu og Portland í Oregon, svo einhverjar séu nefndar. Buettner segir að fólk sé heilbrigðara í þessum borgum og lífslíkur séu 20 árum meiri en í borgum á borð við Tallahassee í Flórída, sem er sláandi tala.

Buettner hefur unnið með tugum bandarískra borga að því að gera þær betri fyrir gangandi og hjólandi og í flestum tilfellum hefur BMI-stuðull fólks lækkað og dregið úr offitu í kjölfarið. Lykillinn er að láta heilbrigða valið vera auðveldasta valkostinn fyrir fólk.


Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á bluezones.com.