Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ganga formenn stjórnarflokkanna jákvæðir inn í viðræður um áframhaldandi ­samstarf þótt togstreita sé um fyrirferðarmikla málaflokka, svo sem heilbrigðismál, umhverfis- og orkumál og skattamál. Allt eru þetta málefni sem voru viðkvæm í stjórnarsamstarfinu en lögð er áhersla á að finna flöt á áður en lengra er haldið í viðræðum.

Miklar líkur eru taldar á að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, verði áfram forsætisráðherra, en líklega verði stokkað upp í ríkisstjórninni að öðru leyti.

Samkvæmt heimildum blaðsins hittust ráðuneytisstjórar ráðuneytanna á fundi tveimur vikum fyrir kosningar til að ræða möguleikann á að færa verkefni til milli ráðuneyta. Þeir komi þó ekki að uppstokkun verkefna fyrr en á seinni stigum.

Hvað varðar fjölgun ráðuneyta koma margir möguleikar til greina og er bæði talað um nýtt innviða­ráðuneyti sem Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir og skiptingu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis í tvö ráðuneyti. Yrði það raunin kæmi til greina að skógrækt og landgræðsla færist frá umhverfisráðuneytinu inn í landbúnaðarráðuneytið.

Ólíklegt þykir að Vinstri grænum verði refsað fyrir fylgistapið í kosningunum með með minni áhrifum innan ríkisstjórnarinnar. Ráðuneyti flokksins verði líklega áfram þrjú. Hins vegar tapi flokkurinn að öllum líkindum embætti forseta Alþingis sem færst gæti til Sjálfstæðisflokksins. Verði ráðuneytum fjölgað muni Framsóknarflokkurinn njóta þess og fá fjóra ráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn áfram fimm.

Þó að umræða um verkaskiptingu sé ekki formlega hafin er Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagður leggja áherslu á að fá fjármálaráðuneytið, en ekki fyrir sig heldur Lilju Alfreðsdóttur eða Willum Þór Þórsson. Sjálfur hafi Sigurður Ingi hug á að setjast í nýtt innviðaráðuneyti.