Það kom blaða­mönnum sem fylgst hafa náið með fjöl­skyldu Rúss­lands­for­seta á ó­vart að sjá meintri launkærustu og barns­móður for­setans bregða fyrir í Moskvu á dögunum.

Fimm­leika­stjarnan Alina Kaba­eva á það til að hverfa með reglu­legu milli­bili. Sam­kvæmt breskum, banda­rískum og sænskum miðlum, er hún sögð hafa verið í felum í sviss­nesku Ölpunum frá því í desember.

Samband Kabaevu og Pútíns er opinbert leyndarmál í Rússlandi en ávallt meðhöndlað eins og heit kartafla. Þau hafa verið orðuð við hvert annað í um það bil áratug en hafa aldrei opiðberað samband sitt. Hún er 38 ára gömul en hann um sjötugt.

Er­lendir miðlar greina nú frá því að Alina hafi sést á við­burði í Moskvu tengdum góðgerðasamtökum hennar. Myndum af henni með ungum fimleikastúlkum hefur einnig verið deilt á samfélagsmiðlum.

Hefur sloppið við refsiaðgerðir

Kabaeva ræddi meðal annars við rússneska fjölmiðla og lýsti áhyggjum af því að íþróttin hennar, fimleikar, verði fyrir skaða vegna refsiaðgerða vesturlanda gegn Rússlandi.

Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN birti innslag um Alinu og Pútín í síðustu viku, meðal annars vegna vangaveltna um mögulegar refsiaðgerðir gegn henni vegna tengsla hennar við Pútín.

Jen Psaki, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins var spurð á blaðamannafundi í síðustu viku hversvegna refsiaðgerðir næðu ekki til Kabaeva. Hún svaraði því til að Pútín sé sjálfur undir refsiaðgerðum auk dætra hans og nánustu viðskiptamanna og vina. „Við munum halda áfram að skoða frekari aðgerðir,“ sagði Psaki, án þess að orða sérstaklega mögulegar aðgerðir gegn kærustunni.

Hin 38 ára gamla Alina er ein frægasta fimm­leika­stjarna Rúss­lands. Hún vann gull í fjöl­þraut á Ólympíu­leikunum Aþenu 2004 en á ferlinum vann hún alls fimm­tán gull­verð­laun á heims­meistara­mótum og níu Evrópu­gull. Hún hefur oft verið kölluð liðugasta kona Rúss­lands.

Fréttablaðið hefur ekki upplýsingar um hve dugleg Kabaeva er að teygja í dag en hún var óneitanlega mjög liðug þegar hún var upp á sitt besta.
Fréttablaðið/EPA

Sögð eiga nokkur börn saman

Kabaeva hefur ekki verið ein í felum í Sviss unanfarna mánuði að því er er­lendir miðlar halda fram því hún er sögð hafa getið Rúss­lands­for­seta nokkur börn sem munu hafa haldið til í Ölpunum með henni.

Síðast þegar Alina hvarf og þá um nokkurra ára skeið, er talið að hún hafi verið ó­frísk af tví­burum. Áður en þeir komu undir er hún sögð hafa fætt Pútín barn í Luga­no í mars 2015.

Rúss­neskir miðlar sem fjallað hafa um við­veru hennar á opin­berum sam­komum í Moskvu að undan­förnu lýsa henni sem ein­hverri dular­fyllstu konu Rúss­lands.

Hún láti aldrei sjá sig á al­manna­færi, haldi ekki úti neinum síðum á sam­fé­lags­miðlum og lítið sem ekkert sé í raun og veru vitað um líf hennar í dag.