Launakostnaður á Íslandi er sá þriðji hæsti í Evrópu samkvæmt nýjum tölum Eurostat, tölfræðistofnunar Evrópusambandsins. Að meðaltali er kostnaðurinn 43,3 evrur á klukkutímann, eða 6.153 krónur.

Noregur trónir á toppinum með 51,1 evru og í öðru sæti er Danmörk. Önnur lönd sem eru nálægt Íslandi í kostnaði eru Benelux-löndin, Svíþjóð og Frakkland. Á botninum á ESB- og EES-svæðinu er Búlgaría, þar sem kostnaðurinn er aðeins 7 evrur, eða 1.002 krónur.

Í flestum greinum atvinnulífsins er Ísland í 2. til 4. sæti á launalistanum. Í einstaka greinum er Ísland þó ekki jafn framarlega. Má þar nefna kennara, starfsfólk orkuveitufyrirtækja og starfsfólk fjármála- og tryggingafyrirtækja sem eru í 7. til 8. sæti í álfunni.

Launakostnaður á Íslandi hefur hækkað mjög mikið á undanförnum áratug. Árið 2012 var Ísland aðeins í 15. sæti í álfunni, á eftir flestum ríkjum Vestur-Evrópu. Staða Íslands hefur hins vegar haldist nokkuð stöðug síðan árið 2017.