Mánaðarlaun tekjuhæsta flugvirkjans hjá Landhelgisgæslu Íslands í fyrra námu rúmum 2,5 milljónum króna.

Alþingi samþykkti í gærkvöldi lög sem bundu enda á verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni sem staðið hafði frá 5. nóvember. Ekki hafði náðst niðurstaða í viðræðum samninganefndar ríkisins og Flugvirkjafélags Íslands fyrir hönd flugvirkja hjá Gæslunni. Frá því á fimmtudag hefur engin björgunarþyrla stofnunarinnar verið starfhæf. Búast má við að ein þyrla verði orðin starfhæf í kvöld.

„Lægstu heildarlaun flugvirkja án launatengdra gjalda voru á síðasta ári 708.466 krónur per mánuð en þau næstlægstu voru 979.177 krónur per mánuð. Hæstu heildarlaunin voru 2.513.236 krónur per mánuð,“ segir í svari frá Landhelgisgæslunni. „Hafa skal í huga að nýráðnir flugvirkjar hafa gjarnan ekki full réttindi en þegar fullum réttindum er náð, hækka launin nokkuð.“

Fram kom á vef Fréttablaðsins í gær að heildarlaun flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni á mánuði í fyrra námu 1.764.291 krónu. „Flugvirkjar í áhöfnum (spilmenn) eru á bakvöktum og fá því álagsgreiðslur, yfirvinnugreiðslur og fleira sem hefur áhrif á laun þeirra til hækkunar miðað við flugvirkja sem starfa alla jafna einungis í dagvinnu,“ var útskýrt í svari til blaðsins. Grunnlaunin hafi að meðaltali verið 855.756 krónur og verið á bilinu 501.213 til 1.162.931 króna.

Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, sagðist í samtali við Fréttablaðið í gær hafa átt von á því að lög yrðu sett á verkfallið. „Það breytti því ekki að við höfðum í sjálfu sér enga kosti til að vinna með,“ undirstrikaði formaðurinn.

Guðmundur sagði hljóðið í flugvirkjum ekki gott. „Nú er lausnin eiginlega úr höndunum á okkur með þessu útspili ríkisstjórnarinnar og dómsmálaráðherra,“ sagði hann.

Í yfirlýsingu Flugvirkjafélags Íslands í gær segir að ríkið sé að reyna koma flugvirkjum Landhelgisgæslunnar úr félaginu.

„Deilan snýst aðeins um eitt af hálfu ríkisins, það er að slíta tengingu við þann samningsgrunn sem flugvirkjar Landhelgisgæslunnar hafa við aðra samninga flugvirkjafélagsins,“ segir yfirlýsingunni. „Þau stéttarfélög sem hafa þurft að lúta þessum brögðum ríkisvaldsins segja farir sínar ekki sléttar eins og fram hefur komið í máli Sjómannafélags Íslands, Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómanna- og Vélstjórafélags Grindavíkur.“