„Hið opinbera er að leggja línurnar fyrir almenna markaðinn í komandi kjaraviðræðum. Það er eina ályktunin sem ég dreg af stöðunni.“

Þetta sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR stéttarfélags, við Fréttablaðið um nýlegar tölur frá Hagstofu sem sýna að laun starfsmanna hins opinbera hækkuðu um tvöfalt meira en starfsmanna á almennum markaði, frá 2020 til 2021. Á milli maímánaða hækkuðu laun á almennum markaði um 5,8 prósent en um 12,4 prósent hjá hinu opinbera og um 14,5 prósent hjá sveitarfélögum.

„Það er erfitt fyrir okkur í verkalýðshreyfingunni að gagnrýna aðrar stéttir,“ sagði Ragnar um þetta misræmi í launahækkunum. „Mín nálgun er sú að þegar aðrar stéttir eru að fara fram úr okkur í kjörum þá leggur það svolítið línurnar fyrir okkur um hvað við ætlum að sækja í fyrir næstu kjarasamninga. Þar horfum við náttúrlega til kjara­þróunar embættismanna – meðal annars Alþingismanna, sem hafa fengið veglegar hækkanir langt umfram það sem við sömdum um í okkar kjarasamningum.“

Ragnar segir að VR eigi eftir að gera faglega úttekt á gögnum Hagstofu, en að litið verði til allra atriða í vinnu við næstu kröfugerð. „Ef þetta eru línurnar sem er verið að leggja fyrir almenna vinnumarkaðinn fyrir komandi kjaraviðræður, mögulega endurskoðun kjarasamninga, þá í sjálfu sér liggur alveg fyrir hver grunnurinn á okkar kaupkröfu verður í aðdraganda næstu samninga.“

Jafnframt telur Ragnar liggja fyrir að nægt svigrúm sé til launahækkana á almennum markaði. „Við sjáum að fyrirtækjum gengur almennt mjög vel á vinnumarkaði og að launakostnaður hefur hlutfallslega lækkað. Við erum með tölulegar staðreyndir fyrir framan okkur sem sýna ákveðið svigrúm sem er að byggjast upp. Við höfum fylgst með stuðningi við fyrirtæki á tíma Covid-faraldursins og okkar fólk og skattgreiðendur almennt munu þurfa að borga þann reikning. Það er alveg klárt mál að staða fyrirtækja á almennum markaði, að ferðaþjónustunni undanskilinni, hefur batnað verulega og er miklu betri en látið var af í aðdraganda Covid-kreppunnar. Þegar við höfum allt þetta fyrir framan okkur þá erum við að sjá hvaða svigrúm er til staðar.“

„Við getum ekki sætt okkur við það ef tilteknir hópar eru að taka einhver langstökk,“ bætir Ragnar við. „Við getum ekki tekið því þegjandi og hljóðalaust að heilu stéttirnar séu að skilja okkur eftir í ryki í kjarabótum.“

Halldór Benjamín formaður SA segir tölurnar sýna mikla óheillaþróun.
Fréttablaðið/Ernir

Halldór Benjamín, formaður Samtaka atvinnulífsins, er ekki hrifinn af launahækkunum hins opinbera. „Það liggur fyrir að almennur markaður þarf að meta svigrúm til launahækkana hverju sinni og það er mikil óheillaþróun sem við sjáum í þessum tölum. Þetta er þó að vissu leyti fyrirséð. Auðvitað er það þannig að þegar við förum í krónutöluhækkanir þá verða hlutfallslega mestu hækkanirnar á lægstu taxtana, sem eru hjá sveitarfélögunum. Það liggur fyrir að þetta er allt saman samtengt og að kjaraviðræður eru margra þrepa leikur með engan enda.“

„Það er alveg ljóst að breytingar sem samið er um í kjarasamningum opinberra starfsama hafa í gegnum söguna birst sem kröfur á almenna markaðinum með tímatöf,“ bætir Halldór við. „Í næstu samningalotu má gera ráð fyrir því að þar sem opinberi gerinn hafi farið fram úr hinum almenna muni þær kröfur framkallast á samningaborðinu.“