Stofnanasamningur og kjarasamningur danshöfunda er í höfn eftir margra ára baráttu Félags íslenskra leikara og Íslenska dansflokksins. Þetta er fyrsti danshöfundasamningurinn sem gerður hefur verið á Íslandi.

Laun og kjör danshöfunda eru nú jöfn á við aðra listræna stjórnendur hjá opinberum sviðslitastofnunum og markar samningurinn tímamót fyrir kvennastéttir í sviðslistum.

Birna Hafstein, formaður FÍL, segir samningaviðræður hafa gengið brösulega en að málið hafi og er enn að mjakast áfram.

„Danshöfundar eru lítil kvennastétt og þetta var mitt hjartans mál,“ segir Birna í samtali við Fréttablaðið. Hún segir samninginn í grunni sínum byggðan á samningum við leikstjóra.

Samninginn undirrita f.h. ÍD Erna Ómarsdóttir, Hlynur Páll Pálsson og Jóhanna Jafetsdóttir og fyrir hönd FÍL Birna Hafstein, Hrafnhildur Theodórsdóttir og Katrín Gunnarsdóttir.
Mynd:Einar Hrafn Stefánsson

„Danshöfundar hafa alltaf verði á rosalega lélegum launum og nú höfum við lagað það hjá Íslenska dansflokknum. Næst á dagskrá eru Þjóðleikhúsið og svo Borgarleikhúsið,“ segir Birna.

Nokkur stór skref hafa verið stigin í kjarabaráttu kvennastétta í sviðslistum. Sögulegur stofnanasamningur var undirritaður í byrjun júní vegna leikara og dansara við Þjóðleikhúsið. Dansarar tryggðu sér þá
laun og réttindi á við laun og réttindi leikara.

Kjör dansara voru einnig bætt hjá Borgarleikhúsinu, þó ekki til jafns við leikara. Bókað var í samningi að jafna laun og réttindi dansara og leikara til fulls í náinni framtíð og er vonast til að sá samningur náist í nóvember 2022.

FÍL hefur svo sannarlega ekki setið auðum höndum í faraldrinum og munu halda áfram að berjast fyrir bættum kjörum í menningargeiranum.

„Við þurfum að halda áfram í uppbyggingu. Það er rosalega ánægjulegt að hafa klárað þetta en svo eru leikmynda- og búningahönnuðir enn kjarasamningslausir. Það er næsta mál á dagskrá hjá okkur og Íslenska dansflokkinum.“