Sól­ey Hall­dórs­dóttir, hjúkrunar­fræðingur á gjör­gæslu­deild Land­spítalans á Foss­vogi, furðar sig á launa­seðli sínum um þessi mánaðar­mót í færslu á Face­book. Laun hennar lækkuðu um 41 þúsund krónur þar sem vakta­á­lags­auki var tekinn af hjúkrunar­fræðingum um mánaðar­mótin. Guð­björg Páls­dóttir, for­maður Fé­lags hjúkrunar­fræðinga, segir mikla ó­á­nægju gæta með ráð­stafanir spítalans vegna niður­fellingu við­aukans.

„Ég vildi óska þess að launa­seðillinn minn í dag væri 1. apríl­gabb!“ skrifar Sól­ey á Face­book í dag í færslu sem hefur hlotið mikla at­hygli. Hjúkrunar­fræðingar eru samnings­lausir.

„Ég var að koma heim úr frá­bæru og gefandi vinnunni minni á gjör­gæslunni í Foss­vogi, starfinu mínu sem ég elska! Vaktin var sér­lega strembin í dag, ég sinnti tveimur sjúk­lingum með co­vid19 í öndunar­vél á­samt því að leið­beina frá­bærum bak­verði sem kominn er til að að­stoða á erfiðum tímum.“

Sól­ey bendir á að hún hafi verið klædd í hlífðar­fatnað í sjö og hálfa klukku­stund í dag með til­heyrandi ó­þægindum til að forðast smit.

„Á morgun ætla ég að vinna auka­lega morgun­vakt og nætur­vakt vegna erfiðra að­stæðna á deildinni (eitt­hvað sem allir sem vinna þar gera við þessar að­stæður),“ skrifar Sól­ey.

„Og hjúkrunar­fræðingar eru samnings­lausir...og já og launin mín lækkuðu um 41 þúsumd krónur í dag. Það hlýtur ein­hver að segja bráðum við mig og sam­starfs­fólk mitt 1. apríl...eða ekki.“

Ekkert þokast í rúmt ár

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Guð­björg Páls­dóttir, for­maður fé­lags hjúkrunar­fræðinga, að mikil ó­á­nægja sé al­mennt meðal hjúkrunar­fræðinga með á­kvörðun stjórn Land­spítalans um að fella niður við­komandi vakta­á­lags­auka. Hjúkrunar­fræðingar hafa verið án samnings í tæpt ár og ekkert þokast í samninga­átt.

„Vakta­á­lags­aukinn er ein af að­gerðum Land­spítalans sem hann greip til, til þess að halda hjúkrunar­fræðingum í vinnu. Við fengum svo að vita það í haust að honum yrði sagt upp eins og öðrum svona sér­tækum úr­ræðum og núna er það bara í rauninni að gerast,“ segir Guð­björg. Hún tekur fram að hún hafi ekki séð færslu Sól­eyjar.

„Þetta er ekki í kjara­samningi en er leið sem Land­spítalinn greip til á sínum tíma,“ segir Guð­björg. Hún segir lítið vera að gerast í kjara­við­ræðum.

„Við áttum fund fyrir viku og erum búin að vísa okkar deilu til ríkis­sátta­semjara og funduðum ein­mitt fyrsta fundinn með full­trúa þess em­bættis á þriðju­daginn fyrir viku. Það skilaði í rauninni engu og ekki á­kveðinn nýr fundur,“ segir Guð­björg.

Hún segist skilja gremju Sól­eyjar vel. „Þetta er slæmt. Það getur enginn verið sáttur sem ekki hefur fengið að kjósa um sín kjara­mál í ein­hver sex ár, frá 2014. Síðan sitjum við undir gerðar­dómi frá 2015, þar til fyrir ári. Hann rann út 2019 og síðan er liðið heilt ár núna þar sem við erum búin að vera í samninga­við­ræðum. Reyndar skal það sagt að það er mjög margt komið en okkur greinir enn á um launa­liðinn.“