Laun bæjarstjóra Garðabæjar fóru yfir þrjár milljónir undir lok síðasta kjörtímabils. Það gera rúmar 164 krónur á hvern íbúa sveitarfélagsins. Launin verða lækkuð um meira en 20 prósent en minnihlutanum þykir þau samt allt of há.

„Þetta er ekki í takti við launaþróun í landinu. Garðabær er 18 þúsund manna samfélag. Ég sé ekki hvernig rekstur Garðabæjar er öðruvísi en rekstur annarra sveitarfélaga hvað varðar ábyrgð bæjarstjóra sem réttlætir þessi laun,“ segir Sara Dögg Svanhildardóttir, oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn. Hún hefur gagnrýnt bæði upphæðina og samningsgerðina sem henni þykir ógagnsæ.

Almar Guðmundsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, tekur við sem bæjarstjóri af Gunnari Einarssyni sem gegnt hefur starfinu frá árinu 2005. Í fjölmiðlum var greint frá því að Gunnar hafi á síðasta kjörtímabili verið launahæsti bæjarstjóri landsins með 2,65 milljónir á mánuði. Sem eru hærri laun en borgarstjórar stórborga á borð við London og New York fá greidd um hver mánaðamót.

Sara Dögg Svanhildardóttir, oddviti Viðreisnar
Mynd/aðsend

Samkvæmt upplýsingum frá Garðabæ kemur hins vegar fram að laun Gunnars í maí hafi verið 3.045.542 krónur. Auk þess var hann með bíl til umráða.

Samkvæmt ráðningarsamningi Almars verða grunnlaun tæpar 2,2 milljónir króna. Tæpar 200 þúsund krónur fær hann fyrir bæjarstjórnarsetu og í stað bíls fær Almar 105 þúsund krónur í bílastyrk. Í grunninn eru þetta því 2,5 milljónir króna, eða um 135 krónur á hvern íbúa.

Laun Gunnars voru 3.045.542 krónur í maí auk hlunninda.

Sara telur að bæjarstjóri Garðabæjar ætti ekki að hafa hærri laun en borgarstjóri Reykjavíkur og forsætisráðherra eins og staðan er núna. Hún nefnir þó enga ákveðna tölu.

„Það eru engar kröfur um hæfi þegar bæjarstjóri er ráðinn með þessum hætti. Það er nóg að hafa flokksskírteinið. Þá ertu kominn með djobbið,“ segir Sara Dögg.

„Starfslýsing bæjarstjóra er skilgreind í lögum og í samþykktum um stjórn Garðabæjar. Þar kemur fram hvað er ætlast til af bæjarstjóra,“ segir Björg Fenger, formaður bæjarráðs, sem samþykkti ráðningarsamninginn við bæjarstjóra í gær.

Ekki eru komnir fram ráðningarsamningar við bæjarstjóra annarra fjölmennra sveitarfélaga. 2,5 milljónir eru þó hærri tala en nokkur annar bæjarstjóri var með á síðasta kjörtímabili.

Aðspurð um hvort þetta séu ekki of há laun og hvort þetta sé gott fordæmi inn í fyrirsjáanlega erfiðan kjaravetur segir Björg að Garðabær sé að bregðast við. „Það er verið að lækka laun bæjarstjóra um rúmlega 20 prósent frá því sem var áður. Með því teljum við okkur vera að sýna gott fordæmi,“ segir hún.